139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[18:16]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þm. Ólöf Nordal erum sammála um nauðsyn þess að vekja sérstaka athygli á því þegar sameiginleg þingmannanefnd Evrópusambandsins og Alþingis Íslendinga heldur fundi.

Hvað varðar að fylgjast með heiminum í kringum sig og ég tala nú ekki um Evrópusambandið sem við sækjumst eftir aðild að eða erum í samningaviðræðum um að komast í þann hóp, er ég líka sammála því að við þurfum að gera það, við þurfum að fylgjast vel með því. Hvort það er gert í þingsölum eða ekki, það þarf ekki að vera deilumál, velta má fyrir sér hvað er hentugast í þeim efnum.

Ég er líka sammála því að áhugavert er að fylgjast með ástandinu í Grikklandi og fróðlegt að fylgjast með því hvernig gengi evrunnar sveiflast til og frá. Einhvern tímann hefur verið sagt að gengi gjaldmiðla sé eins og hitamælir á efnahagsástandið. Stundum er fólk veikara og þá hækkar hitinn, stundum er efnahagsástandið verra og þá lækkar gengið. Þetta er allt mjög fróðlegt, ég er sammála því. Við eigum að fylgjast með þessu öllu saman.