139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[18:20]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta bætti náttúrlega engu við umræðuna. Hér er verið að tala um sjávarútvegsmálin og hæstv. utanríkisráðherra segir að hann komi ekki auga á hvað það er í þessum tilteknu frumvörpum sem hafi þessi áhrif á greinina sem ég lét í veðri vaka í ræðu minni. Ég er hæstv. utanríkisráðherra algjörlega ósammála í því. Íslenska sjávarútvegskerfið, þetta svokallaða kvótakerfi, hefur skipt okkur gríðarlega miklu máli í efnahagslegu tilliti. Við höfum farið frá því að vera í óhagkvæmu sjávarútvegskerfi, sem var hér upp úr 1980 til 1990 þar sem sjávarútvegurinn var í verulega miklum fjárhagsvanda, yfir í það að við höfum nýtt okkur það besta sem er í markaðsreknu hagkerfi til að auka arðsemi í sjávarútveginum, til að bæta veiðarnar, til að passa upp á nýtinguna, allt til þess að skila þjóðarbúinu gríðarlega miklum ábata. Þetta tiltekna frumvarp hefur ekki verið lagt fram en ég hef auðvitað reynt að afla mér upplýsinga um efni þess. Ég skil málið þannig að það sé hvergi rökstutt hvað það er í sjávarútvegskerfinu sem er svona hættulegt að því þurfi að breyta að svona stórkostlega mikið.

Við hæstv. utanríkisráðherra höfum stundum talað hér um orkumál. Það var í tíð hans sem iðnaðarráðherra. Þá var gerð breyting hér á nýtingu orkuauðlinda og tímabundnir samningar gerðir. Það virðist vera himinn og haf á milli þeirrar lagasetningar, þess tímaramma sem þar er undir, og þess sem er hér núna í fiskveiðistjórnarkerfinu.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að á því sviði, þegar kemur að auðlindum í hafi, er óvissan mun meiri en t.d. þegar kemur að nýtingu orkuauðlinda. Ég held, virðulegi forseti, að þetta sé nefnilega grundvallaratriði að við séum ekki að auka óvissuna í greininni. Við sjáum það bara, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, á viðbrögðum allra þeirra sem gerst þekkja á sviði sjávarútvegsmála (Forseti hringir.) að menn hafa af þessu stórkostlegar áhyggjur.