139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[18:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég bið nú hv. þingmann afsökunar á því að ræður mínar séu svo lélegar að þær bæti engu við umræðuna. Ég get alla vega glatt hana með því að ræða hennar bætti í umræðuna, a.m.k. frá mínum bæjardyrum. Ég hef verið að reyna að glöggva mig á því hér í dag af hverju þingmenn Sjálfstæðisflokksins draga þær breytingar á stjórnkerfi fiskveiða sem fyrirhugaðar eru inn í þessa umræðu og a.m.k. skil ég það núna að hv. þingmaður telur að það að leigja eða að semja um nýtingarréttinn til tiltekins tíma sé skaðlegt vegna þess að hann er ekki nógu langur. Ég veit það þá alla vega. Ég veit ekki betur en að í landi eins og Noregi sé tíminn skemmri í sumum tilvikum en hér er um að ræða og ekki reka menn sjávarútveginn þar með tapi.

Hv. þingmaður bað um umræðu um evruna og sagði að Evrópusambandið væri að breytast svo mikið. Hugsanlega á hún við að Evrópusambandið sé að breytast yfir í meira lénsveldi en áður. Ég held að þróunin sé öll á annan veg. Og að því er evruna varðar er það einfaldlega þannig að ESB hefur núna á síðustu mánuðum, síðustu missirum, gripið til mjög róttækra aðgerða til þess að styrkja evruna og efla stöðugleika á evrusvæðinu. Viðreisn efnahagslífsins á evrusvæðinu sem við fengum tölur um núna í síðustu viku sýnir að þær aðgerðir eru að takast. Ég held því að það sé full ástæða til að vera bjartsýnn á framtíð evrunnar. En vitaskuld er ég sammála hv. þingmanni um að þetta er eitt af því sem við þurfum að ræða og kafa djúpt ofan í. Ég bendi hins vegar á að vinir okkar í Eistlandi héldu ótrauðir áfram sínu ferðalagi í þá átt að taka upp evruna og gerðu það um síðustu áramót. Þeir höfðu fulla trú á því að evrusvæðið mundi rétta úr kútnum og það er að gerast. Var það ekki síðast í fyrradag sem komu tölur um að hagvöxtur á síðasta ársfjórðungi hefðu rétt úr kútnum miðað við sama ársfjórðung í fyrra sem svaraði til 2,5%? Ég gæti talið upp nokkur lönd (Forseti hringir.) sem eru virkilega að komast út úr storminum á evrusvæðinu.