139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[18:38]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það er auðvitað nokkuð augljóst að það hljómar mjög sérkennilega að sá flokkur sem er einn um það að vilja í raun og veru inn í Evrópusambandið, þ.e. Samfylkingin þar sem aðrir flokkar hafa lýst því yfir að þeir telji að hag Íslands sé betur borgið utan þess en innan, að sá flokkur sem berst fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu sé um leið sá flokkur sem gangi hvað harðast fram gegn núverandi fiskveiðistjórnarkerfi á Íslandi. Það hlýtur að vera svolítið sérkennilegt að vera í þeim flokki og horfa síðan upp á það að Evrópusambandið, sem hið fyrirheitna land hvað þetta varðar, sé að opna augu sín fyrir því að íslenska fiskveiðistjórnarkerfið sé ákaflega skynsamlegt og gott kerfi sem skili mikilli arðsemi og geti orðið sjálfbær atvinnugrein en ekki félagslega kerfið sem við þekkjum frá Evrópusambandinu. Það kom reyndar fram í rýniskýrslunum að menn töldu að tekið yrði nokkurt mark á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu vegna þess að það væri mun stærra, fiskveiðar í Evrópu skipti svo litlu máli og eiginlega líti menn ekki á það sem atvinnugrein heldur félagslega aðstoð, minnir mig að ég hafi séð í texta.

Þess vegna hljómar það mjög sérkennilega að á sama tíma og hér eru lögð fram frumvörp — þau eru reyndar ekki komin fram í þinginu en boðað hefur verið að þau verði lögð fram — þar sem á ýmsan hátt er nánast er verið að ganga milli bols og höfuðs á núverandi kerfi með alls kyns aðgerðum skuli Evrópusambandið huga að því að taka upp sama kerfi, alla vega í einhverja átt jafnvel þau atriði sem hér hafa verið mest gagnrýnd, svona hið villtasta framsal þ.e. milli landa og eitthvað slíkt, að það skuli hugsanlega verða undirstaða hins nýja kerfis í Evrópu á sama tíma og við ætlum að leggja það af hér.