139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[18:44]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil eins og margir aðrir þingmenn byrja á því að lýsa ánægju minni yfir að það skuli hafa verið tekið upp hér að ræða árlega skýrslu utanríkismála, af nægu er að taka, svo mikið er víst. Ekki er undarlegt þó að umræðan í dag hafi hverfst að miklu leyti um langstærsta einstaka málið sem uppi er á vettvangi utanríkismála, sem er umsóknin um aðild að Evrópusambandinu sem samþykkt var hér á Alþingi með tilstuðlan þingmanna allra flokka fyrir um tveimur árum. Það er sjálfsagt að nota þær mínútur sem ég hef til ráðstöfunar til að fara yfir stöðu þess máls.

Eins og fram hefur komið er rýnivinnu lokið og hið eiginlega samningaferli að hefjast. Það hefst núna í sumar. Þá munu samninganefndirnar fara yfir þá 33 kafla sem þarf að fara í gegnum og semja sérstaklega um. 10 falla alfarið undir EES-samninginn, 11 að stórum hluta og 12 kaflar eru fyrir utan EES og þarf raunverulega að semja um. Þar kemur að hinum vandmeðförnu og erfiðu málum, sem eru landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál, þó að flest bendi til þess að við getum náð þar ágætum samningi og jafnvel meira en svo. Hægt er að leiða rök að því að mögulegt sé að ná mjög góðri stöðu fyrir flestar greinar landbúnaðarins þannig að þær geti hafið stórsókn til frekari framleiðslu. Mun ég koma aðeins betur að því á eftir.

Hvatinn að umsókninni er að sjálfsögðu að miklu leyti sú sjálfstæða örmynt sem við Íslendingar búum við. Í hinum alþjóðavædda og landamæralausa heimi atvinnu- og viðskiptamála Vesturlanda og heimsins mestalls er erfitt eins og fram hefur komið að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli, enda hafa margir hagfræðingar haldið því fram um árabil að það þurfi að lágmarki 5–6 milljónir manna til að standa á bak við gjaldmiðil þar sem það er mjög kostnaðarsamt og snúið að halda úti stöðugum gjaldmiðli án þess að styðjast við ströng höft og verðtryggingu og alls konar plástra til að halda kerfinu gangandi. Við finnum mjög harkalega fyrir því núna.

Ferlið er eins og fram hefur komið mjög opið. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir rakti það áðan hvernig umsóknarferlið að Evrópusambandinu væri það opnasta sem nokkurn tímann hefði verið viðhaft. Það er mjög athyglisvert í samanburðarfræðum úr aðildarsögu hinna 27 ríkja sem standa á bak við Evrópusambandið að þau lönd sem hafa farið hraðast inn frá því þau sóttu um aðild eru Finnland og Svíþjóð 1991. Þau urðu aðilar að Evrópusambandinu rúmlega fjórum árum eftir að þau sóttu um aðild. Þetta voru EFTA-ríkin sem sóttu um aðild að Evrópusambandinu þá og gerðust aðilar á meðan Noregur felldi aðildina í sömu lotu og gerði EES-samning með okkur Íslendingum og Liechtenstein. Þetta er sagan á bak við það. Ef við Íslendingar náum að koma heim með fullgerðan samning á næsta ári sem yrði kosið um snemma árs 2013 eða síðar yrði það stysti tími frá því að nokkur þjóð hefur hafið aðildarferli þangað til hún er búin að leiða það til lykta hvort landið muni gerast aðili eða ekki í lýðræðislegri þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn. Það er ástæða til að vera bjartsýnn á að þetta ferli muni ganga mjög hratt fyrir sig og hraðar en nokkurn tímann áður í sögu Evrópusambandsins þannig að samningur verði kominn hingað heim á innan við fjórum árum og leiddur til lykta innan þess tímaramma sem sagan kennir okkur að sé stysti tími sem ferlið hefur nokkurn tímann tekið.

Í apríl var haldinn annar fundur hinnar sameiginlegu þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins. Hann var haldinn hér á landi. Hlutverk nefndarinnar er mjög mikilvægt í ferlinu öllu, þ.e. að fylgjast með umsóknarferlinu, veita því þinglegt og þar með lýðræðislegt aðhald og mögulega taka afstöðu til einstakra þátta sem hæst bera í ferlinu hverju sinni.

Eins og ég nefndi áðan er rýnivinnu vegna aðildarviðræðna lokið. Þá styttist í að hinar eiginlegu aðildarviðræður hefjist. Við höfum auðvitað það forskot á aðrar umsóknarþjóðir sem núna eru í því ferli og eru sumar búnar að vera í í mörg ár eins og Tyrkland og fleiri, Balkanþjóðirnar, að á 17 árum höfum við innleitt sem hluti af innri markaði Evrópu stóran hluta af regluverki sambandsins. Það mun sjálfsagt ganga greitt að semja um flesta kaflana þangað til kemur að sjávarútvegi og landbúnaði. Þó að það geti í sjálfu sér gengið ágætlega fer mesta vinnan í það.

Ég fékk það hlutverk á umræddum fundi að bera saman landbúnaðarkerfi okkar Íslendinga og Evrópusambandsins sem eru um margt nokkuð ólík. Nauðsynlegt er að plægja sig málefnalega í gegnum það, enda eru efasemdir margra bænda miklar um að hag þeirra sé bærilega borgið innan Evrópusambandsins. Engin er ástæða til að óttast það ef vel er á málum haldið. Álit meiri hluta utanríkismálanefndar frá því í júlí 2009 veitir skýra leiðsögn um samningsmarkmiðin sem eru þau að standa vörð um landbúnaðinn, verja hann til hins ýtrasta og reyna að tryggja að greinin standi betur en ekki verr eftir að til aðildar að Evrópusambandinu kemur.

Grundvallarmunurinn á gerð Evrópusambandsins og íslenska landbúnaðarkerfisins liggur í því að sambandið hefur að mestu aftengt stuðningsgreiðslur frá búvöruframleiðslu þegar styrkirnir eru aftur á móti að mestu enn þá framleiðslutengdir hérna. Verði að aðild þýðir það að nýtt starfsumhverfi fyrir landbúnaðinn verður til. Þá þarf að leita sérstakra lausna fyrir Ísland með tilvísun í sérlausnir sem Svíar og Finnar fengu á sínum tíma. Margir möguleikar eru á því þegar litið er til sérstöðu landsins. Það að vera eyja gefur okkur von um að við getum leitað margra sérstakra lausna t.d. í landbúnaðarmálum eins og sagan kennir okkur að aðrar eyþjóðir fjarri meginlandinu og stóru mörkuðunum hafa fengið. Fyrst blasir við að Ísland verði skilgreint sem harðbýlt svæði og kennt við 62° sem var tekið upp í samningum við Finna og Svía. Það heimilar þeim að styrkja landbúnaðinn beint úr eigin ríkissjóði burt séð frá reglum Evrópusambandsins að öðru leyti. Þannig má mæta ágjöf sem greinarnar verða mögulega fyrir vegna niðurfellingar á tollum. Hér á landi eru að sjálfsögðu nokkuð takmarkaðir ræktunarmöguleikar vegna legu landsins, sumarið er stutt og ræktunartíminn skammur borinn saman við löndin á meginlandi Evrópu. Þá er heimilt í regluverki Evrópusambandsins að styðja sérstaklega við fjarlæg svæði sem eru langt utan markaða meginlandsins. Svæði á borð við Azoreyjar sem eru um margt sambærileg við stöðu Íslands, ekki síst þar sem staðbundnir annmarkar á borð við legu lands og veðurfar hafa miklu meiri áhrif hér á landi en á áðurnefndum eyjaklasa. Rökin fyrir þessum undanþágum og viðurkenning á sérstöðu eru þau að viðhalda samkeppnishæfi landbúnaðarins við aðild og koma í veg fyrir að hún raski búsetu og búgreinum í landinu og að sjálfsögðu þarf að semja um að innflutningur á lifandi dýrum verði áfram bannaður sem og hingað til. Það er ófrávíkjanlegt samningsmarkmið sem mun út frá sögunni ganga vel að ná fram.

Við blasir að unnt er að ná góðum samningi fyrir íslenskan landbúnað. Þó að verulegar breytingar verði út af niðurfellingu á tollum getum við áfram stuðst við beingreiðslur út af framleiðslu. Breytingarnar eru sérstaklega út af niðurfellingu á tollvernd en því má mæta með ýmsum hætti.

Styrkjakerfi Evrópusambandsins er þannig byggt upp að það styrkir landnýtingu á hvern hektara sem bóndi nýtir og því næst að mörgu leyti jafnari og almennari stuðningur við búsetu í sveitum. Allar jarðir fá stuðning út frá landnýtingu og hekturum. Það er bóndans og framleiðendanna að ráðstafa hvernig styrkjum er varið. Allir þeir sem eru með lögbýli og nýta jörðina og rækta landið fá því stuðning í formi beingreiðslna frá Evrópusambandinu út frá nýtingu á hvern hektara. Svo getum við samið um að styrkja t.d. dilkakjöts- og mjólkurframleiðslu áfram með framleiðslutengdum hætti ofan á landnýtingarstyrki Evrópusambandsins sem gefa m.a. svínabændum og ýmsum öðrum mikil tækifæri til kjarnfóðurframleiðslu.

Möguleikarnir fyrir dreifbýlið og landbúnaðinn eru miklir í Evrópusambandsaðild þó að það blasi við að breytingar verði á stöðu greinanna þegar tollvernd fellur niður. Hún er metin á 7–8 milljarða á ársgrundvelli. Þess vegna er okkar að finna aðrar leiðir við aðild til að styrkja sérstaklega við landbúnaðinn, mæta þeim ágjöfum sem einstaka greinar verða fyrir við niðurfellingu tollverndarinnar og tryggja að landbúnaðurinn geti farið að framleiða af fullum krafti fyrir hinn 500 milljóna Evrópumarkað þar sem gríðarleg tækifæri er að finna fyrir íslenskan landbúnað.