139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[19:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir ágæta ræðu. Hún minnti mig reyndar dálítið á ræðu sölumanns sem er að selja vöru. Hann lofaði landbúnaðinum þessu og hinu. Hann kemur úr landbúnaðarhéraði og hefur sennilega átt dálítið bágt þar vegna þess að bændur eru almennt á móti því að afsala sér sjálfstæði landsins. Hann talaði um mikla styrki sem við gætum fengið og svo kæmi náttúrlega óskaplega stór markaður sem bændur gætu nýtt sér. Þetta var allt saman mjög gott. Hann gleymdi hins vegar að nefna V-in þrjú eða fjögur, sem eru lægri vextir, engin verðbólga og lægra verðlag — betra veður líka, held ég, frú forseti. Þannig að ekki skortir loforðin.

Sannfæring þingmannsins er greinilega í þá átt að hann vill ganga í Evrópusambandið og hann segir að við komum hugsanlega heim með samning 2013, að það verði mjög stutt í atkvæðagreiðslu. Þá gleymir hann því að sá samningur fer fyrir Alþingi og Alþingi þarf að samþykkja hann. Eftir það þarf væntanlega að breyta stjórnarskránni, af því að stjórnarskráin þolir ekki samning við Evrópusambandið. Þegar búið er að samþykkja stjórnarskrárbreytinguna þarf að kjósa. Þá kemur nýtt Alþingi sem aftur þarf að samþykkja samninginn. Og þá erum við komin inn í Evrópusambandið.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Segjum svo að í þjóðaratkvæðagreiðslunni miklu muni 70% landsmanna taka þátt, þar af 40% segja nei og 30% já, þ.e. 57% segja nei; mun hv. þingmaður hafa þá sannfæringu að greiða atkvæði á móti því að ganga inn í Evrópusambandið? Breytist sannfæring við það eitt að kjósendur hans (Forseti hringir.) skipti um skoðun?