139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[19:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hversu oft hef ég ekki hlustað á bílasala halda fram staðreyndum um að bíllinn sé nú góður svona og svona? Minnir mig samt á það, þessi ræða hv. þingmanns. Hann svaraði því ekki hvernig hans sannfæring mundi breytast eftir því hver niðurstaðan úr þjóðaratkvæðagreiðslunni yrði. Ég ætla að lesa enn einu sinni, frú forseti, 48. gr. stjórnarskrárinnar sem hv. þingmaður skrifaði undir og hefur svarið eið að og hæstv. utanríkisráðherra og allir aðrir þingmenn hafa svarið eið að. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Þetta ákvæði í stjórnarskránni segir mér að sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem fari fram hefur ekkert að segja. Hún hefur akkúrat ekkert að segja. Það eru þingmenn á hinu háttvirta Alþingi Íslendinga sem munu greiða atkvæði í samræmi við sannfæringu sína. Og halda menn að ég eða hv. þm. Ásmundur Einar Daðason greiðum atkvæði með því að afsala okkur sjálfstæðinu og ganga inn í Evrópusambandið bara vegna þess að þjóðin segi já við því? Og halda menn virkilega að hv. þingmaður, sem er eindreginn Evrópusinni, greiði atkvæði á móti því að ganga í Evrópusambandið eða hæstv. utanríkisráðherra ef þjóðin segir nei? Eru menn virkilega að segja að sannfæring þeirra sé ekki meira virði en þetta? Eru menn virkilega að segja að þeir ætli að hlíta reglum frá kjósendum sínum í þjóðaratkvæðagreiðslu og brjóta þá stjórnarskrá sem þeir hafa svarið eið að?