139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[19:09]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þingmaðurinn hefur einstakt lag á að gera einfalda hluti mjög flókna, hvort heldur hann er að selja þjóðinni það að einkavæða eigi allt milli himins og jarðar, allt sem hönd á festir og ríkið eða opinberir aðilar eiga eða hafa nokkurn tímann átt, eða þegar hann er að teikna upp mynd af sínum eigin viðhorfum í garð Evrópusambandsins.

Sannfæring mín og viðhorf gagnvart samningnum munu ráðast af því hvort mér þyki hann góður samningur eða ekki og hvort hlutskipti landbúnaðar og yfirráð okkar yfir sjávarauðlindinni verði með viðunandi hætti. Það mun ráða minni afstöðu, ekkert annað. (PHB: En þjóð…) — Nei, nei, nei, nei. (PHB: … niðurstaða …) Þetta mun ráða minni afstöðu. Þjóðin mun hins vegar ráða því, meiri hlutinn og minni hlutinn, í atkvæðagreiðslu. Ef þjóðin fellir samninginn í atkvæðagreiðslu verður ekkert um aðild að ræða. Þá töpum við sem börðumst fyrir aðild o.s.frv. (PHB: Ef hv. þingmaður telur …) Þá mun ég að sjálfsögðu berjast fyrir því í þjóðaratkvæðagreiðslunni að hann verði samþykktur, það er það sem málið snýst um. (Gripið fram í.) Þannig að þetta er mjög mikil fjallabaksleið að umræðunni sem þingmaðurinn fer þarna, af því að þjóðin mun eiga síðasta orðið. Ef hún samþykkir það, meiri hluti kjósenda sem gengur til atkvæða þar, að við eigum að samþykkja samninginn, gerumst við aðilar að sambandinu, annars ekki. (PHB: Mun hv. þingmaður ganga gegn stjórnarskránni?) Nei, nei, þannig að þetta er mikill krókur sem þingmaðurinn tekur þarna á sig til að reyna að flækja málið svolítið.

Það sem þetta allt snýst um er að ná sem bestum samningi, endurheimta þannig með aðild efnahagslegt fullveldi þjóðarinnar og fullveldi yfir okkar ákvörðunum að stóru leyti sem við afsöluðum okkur að stórum hluta með EES-samningnum, sem er lýðræðislegt afstyrmi. Þó að hann hafi gagnast okkur vel á mörgum öðrum sviðum, hefur hann líka komið okkur mjög í koll. Það voru dýrkeypt mistök að gera EES-samninginn á sínum tíma í staðinn fyrir að gera eins og Davíð Oddsson lagði til: Sækja um aðild að Evrópusambandinu.