139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[19:58]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég geri mér algjörlega grein fyrir því að það er erfitt að svara öllum þessum spurningum á stuttum tíma, en hæstv. ráðherra getur huggað sig við það að ég hefði verið með miklu fleiri ef ég hefði haft meiri tíma. (Utanrrh.: Ég er ekki …) Nei, nei, ég var ekki að gefa það í skyn. En varðandi ERM II, bara til að skýra þá spurningu mína sem ég á enn þá eftir að fá svar við, sagði ég aldrei að hæstv. ráðherra hefði haldið því fram að gengið mundi styrkjast við umsókn. Ég sagði að áður en umsóknin hefði verið samþykkt töluðu þeir sem töluðu fyrir slíkri umsókn um að allt færi á miklu betri veg um leið og umsóknin yrði lögð fram, þ.e. að við mundum strax sjá þess merki að við værum orðin umsóknarríki, þar á meðal kæmumst við í samstarf ERM II við Evrópusambandið mjög fljótlega. Nú eru komin tæp tvö ár. Ég hef ekki séð að okkur hafi verið boðið í það samstarf og spyr því hæstv. ráðherra hvernig því líði.

Varðandi þjóðaröryggisstefnuna og það hvort Vinstri grænir séu búnir að skipta um skoðun vil ég tala áfram um það sem mér finnst vera, og nefndi það, barnalegur rökstuðningur fyrir þessu. Mér finnst reynt að halda fram að nú séu einhver skilyrði fyrir hendi til að ná um þetta þverpólitískri sátt. Í öðru lagi fyrir rökstuðningnum er sagt á bls. 48 að í Atlantshafsbandalaginu hafi þróunin verið ör og að það sé nú pólitískt bandalag ekki síður en varnarbandalag. Ég nota orð sem hæstv. ráðherra notar stundum: Herra guð, ef Atlantshafsbandalagið hefur ekki verið pólitískt bandalag hingað til er það ekki það bandalag sem ég þekki. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að Atlantshafsbandalagið er óbreytt að ýmsu leyti, það er hernaðarbandalag, það er varnarbandalag (Forseti hringir.) sem byggist á hernaðarmætti og hernaðarsamstarfi aðildarfélaga sinna. Það mun ekki breytast (Forseti hringir.) og þess vegna efast ég um að það sé fóður fyrir þessa sögulegu sátt.