139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[20:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir yfirgripsmikla og vandaða skýrslu og þá umræðu sem fram hefur farið um hana í dag. Eðlilega hefur umræðan beinst nokkuð að Evrópusambandinu og Íslandi og þeirri þróun sem þar hefur orðið síðasta árið enda um að ræða brýnasta hagsmunamál okkar Íslendinga í utanríkismálum og út af fyrir sig í innanríkismálum líka. Sem betur fer er hægt að fagna því að ýmislegt horfir þar betur á þessu ári en gerði um líkt leyti í fyrra þó að auðvitað hafi líka ýmislegt þokast á hinn veginn.

Um jákvæðustu þættina snýr það kannski ekki síst annars vegar að þeim mesta ávinningi sem við Íslendingar höfum horft til við aðild að Evrópusambandinu sem er lausn á peningamálunum, á gjaldeyris- og gjaldmiðilsmálunum í landinu, og hins vegar sem lýtur að stærstu áhyggjum okkar í tengslum við umsóknina sem eru sjálf sjávarútvegsmálin.

Áður en ég kem að þeim ágætu tíðindum sem orðið hafa af hvorutveggja á liðnu ári er auðvitað fyllsta ástæða til að harma að á sama tíma hefur heldur aukið á andstöðuna við aðild að sambandinu meðal almennings og það virðist m.a. hafa haft áhrif á suma stjórnmálaflokka til þess að fleiri hafa orðið til að lýsa því yfir að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins. Hvernig svo sem mönnum tekst að komast að þeirri niðurstöðu eftir að Ísland hefur í hátt á annan áratug gert þá tilraun að standa á Evrópska efnahagssvæðinu utan Evrópusambandsins og að raunvísindi íslensku leiðarinnar í þeim efnum hafa komið fram í því að landið fór á hausinn. Það hlýtur auðvitað í eftirmála þess hruns að vera a.m.k. flestum öðrum en andstæðingunum sjálfum með miklum ólíkindum hvernig unnt er að draga þá niðurstöðu af lærdómi síðustu missira og ára að það sé einmitt með því að berja höfðinu við steininn og rembast áfram við að sprikla, 300 þúsund manna samfélag á 500 milljóna manna markaði, sem hagsmunum Íslands sé best borgið og eðlilegt að spurt sé hvort þá sé talið að hagsmunum Íslands sé best borgið með því að fara aftur á hausinn með því að gera sömu mistökin.

Því það má hverjum manni ljóst vera að 300 þúsund manna samfélag sem freistar þess að starfa á 500 milljón manna markaði verður alltaf í þeirri hættu að þau gríðarlega stóru fyrirtæki sem vaxið geta upp á 500 milljón manna markaði verði þessu 300 þúsund manna samfélagi ofviða eins og hér gerðist í ofvexti fjármálakerfisins sem hvorki stjórnmálakerfið né skrifræðiskerfið fengu nokkuð við ráðið. Það er einmitt þess vegna sem það er svo brýnt að við ekki flýjum út af þessum 500 milljón manna markaði sem væri þó út af fyrir sig samkvæmt sjálfu sér ef menn vilja halda sig við einangrunarhyggjuna, að ef menn vilja standa utan Evrópu geri þeir það líka án þess að vera að tefla á tvær hættur á evrópska markaðnum eins og þeir hafa verið að gera. En ef við viljum halda þeim gríðarlega efnahagslega ávinningi og þeim mikilvægu lífskjarabótum sem við höfum fengið með aðildinni að þessum stóra markaði er það til allrar framtíðar gríðarlegt hagsmunamál fyrir okkur að ljúka þeim leiðangri sem aðildin að Evrópusambandinu er og þá auðvitað ekki síst það sem hvatti okkur helst til að fara í þann leiðangur, upptaka gjaldmiðilsins. Í þeim efnum er það sérlega ánægjulegt hversu vel hefur gengið að fylgja fram efnahagsáætluninni og að nú benda spár til þess að árið 2013 verði aðrir þættir en skuldahliðin uppfylltir í því efni og fagnaðarefni að heyra í umræðunni bjartsýni hæstv. utanríkisráðherra um það að að aðildarsamningi samþykktum gætum við tekið evruna upp á þremur árum.

Auðvitað er það svo að skuldir Íslands eru miklar en þær eru þó ekki eins miklar og menn óttuðust við hrunið og á móti hinum miklu skuldum kemur sannarlega sterk staða lífeyrissjóðanna og það að Ísland á meiri peningalegar eignir en aðrir. Og það er sannarlega svo að okkar eigin gjaldmiðill, íslenska krónan, er að hjálpa okkur við að vinna okkur hratt út úr þessum vanda, en þó að hún hjálpi okkur við að vinna okkur út úr vandanum hefur hún sannarlega ekki hjálpað við að forða okkur frá því að lenda æ ofan í æ í djúpum efnahagslægðum og til þess að okkur megi takast að forðast það í framtíðinni er mikilvægt að okkur takist að verða aðili að fullburða fjölþjóðlegri mynt sem er stöðug og ber hóflega vexti fyrir almenning og atvinnulíf í landinu. Í því er sjálfstæði falið en þjóð í höftum og gjaldeyrishöftum eins og við nú erum í er auðvitað ekki sjálfstæð þjóð. Þess vegna er fagnaðarefni að í þessu kannski stærsta hagsmunamáli sem snýr að aðildinni horfir töluvert betur en gerði á síðasta ári þegar utanríkisráðherra flutti skýrslu sína þá.

Helsta áhyggjuefni okkar hvað hagsmuni varðar í aðildarumsókninni er auðvitað það sem snýr að sjávarútveginum og þar eru líka jákvæð tíðindi frá því að við fengum síðast skýrslu frá utanríkisráðherra sem eru þau ákvæði sem lúta að reglugerð Evrópusambandsins um stjórn landa yfir staðbundnum fisktegundum sem eru skýrar og ótvíræðar heimildir til þess að það sé ekki sambandið sjálft heldur hin einstöku aðildarríki sem taki fullnaðarákvörðun um nýtingu á staðbundnum stofnum. Í þeirri tilskipun er auðvitað túlkunaratriði hvað átt er við með orðunum efnahagslegt mikilvægi því að þær tegundir sem hér er vísað til eru einkum tegundir sem hafa ekki mikið efnahagslegt mikilvægi og sannarlega mun það eflaust koma til umræðna í viðræðum okkar við Evrópusambandið en eigi að síður mikilvægt og gott skref að sambandið skuli sjálft innan sinna vébanda hafa ákveðið að þetta prinsipp, þetta grundvallarsjónarmið um staðbundnar fisktegundir, að ákvörðun um veiði á þeim sé best komin í hverju ríki fyrir sig. Það er auðvitað mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að geta vísað til.

Ég vil að lokum um Evrópusambandið leggja á það áherslu að um leið og það er ánægjulegt hve vel vinnan hefur farið af stað er það gríðarlega mikilvægt að viðræðunum verði lokið og við náum ásættanlegum aðildarsamningi sem unnt sé að leggja í dóm þjóðarinnar á þessu kjörtímabili. Það er nú svo að þó að Samfylkingin ein tali fyrir aðild sem heill og óskiptur flokkur skiptast stuðningsmenn annarra flokka margir í tvö horn hvað þetta varðar og skoðanir eru skiptar þvert á hið pólitíska litróf um aðild að Evrópusambandinu og ég er sannfærður um að það væri ákveðin frelsun fyrir stjórnmálin ef tekst að ráða þessu mikla álitamáli og ágreiningsmáli í íslenskri flokkapólitík til lykta utan raða flokkanna í allsherjaratkvæðagreiðslu almennings í landinu.

Ég vil fá að nota tækifærið og nefna líka mikilvægi þróunarsamvinnunnar og að við hugleiðum það að þó að við oft vorkennum sjálfum okkur og finnum sárt til eftir hrunið er það engu að síður þannig að eftir það erum við enn í hópi ríkustu þjóða veraldar og það að við skulum nú hlutfallslega láta umtalsvert minna af hendi rakna til fátækasta fólksins í heiminum sýnir af okkar hálfu ekki mikla samkennd með þeim sem þolað hafa mátt meira hrun (Forseti hringir.) og meiri erfiðleika en við og að við verðum að einsetja okkur á allra næstu árum að uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna um (Forseti hringir.) að verja 0,7% af þjóðartekjum til fátækustu ríkja veraldar.