139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[20:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þetta síðasta, gefum okkur að þjóðin hafi farið í þjóðaratkvæðagreiðslu sem hafi farið svona og svona. Síðan kemur málið inn til Alþingis og þá verður hver og einn einasti þingmaður að greiða atkvæði í samræmi við sannfæringu sína, um það hvort við ættum að ganga í Evrópusambandið, ekki um það hvernig þjóðin greiddi atkvæði. Menn greiða atkvæði um það hvort Ísland eigi að afsala sér sjálfstæði sínu og ganga í Evrópusambandið eða ekki. Hv. þingmenn hljóta að hafa sannfæringu fyrir því hvort Ísland verði hluti af Evrópusambandinu eða ekki. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður hafi þá sannfæringu að Ísland eigi að vera aðili að Evrópusambandinu. Ef þjóðin fellir samninginn, ætlar þá hv. þingmaður virkilega að greiða atkvæði gegn því að Ísland gangi í Evrópusambandið? Ætlar hann að greiða atkvæði gegn sannfæringu sinni, fyrri sannfæringu eða hvernig sem það er? Breytist sannfæringin við það að þjóðin greiði atkvæði? Mér finnst þetta alveg ótrúlegt.

Það stendur í 48. gr. stjórnarskrárinnar að menn eigi ekki að fara eftir neinum reglum frá kjósendum sínum. Þjóðaratkvæðagreiðslan er regla frá kjósendunum og það má ekki fara eftir henni. Menn eiga bara að fara að sannfæringu sinni þannig að þarna er holur hljómur hjá hv. þingmanni. Hann hefur svarið eið að þessari stjórnarskrá, ég bendi á það.

Svo varðandi hrun og stór fyrirtæki og allt það fór ég rangt með áðan. Ísland varð ekki gjaldþrota, það varð hrun hérna í bankakerfinu. Ísland varð ekki gjaldþrota og hefur aldrei orðið gjaldþrota. En hv. þingmaður er að spá því að það verði gjaldþrota vegna þess að það geti ekki staðist stóru fyrirtækin í Evrópusambandinu. Ég verð að segja að það er ekki mikið sjálfsálit sem hv. þingmaður hefur gagnvart íslensku þjóðinni.