139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[20:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara yfir það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal var að inna hv. þingmann eftir en röksemdafærsla hv. þingmanns, um að hann mundi framselja sannfæringu sína til félagasamtaka, sveitarfélaga og annað slíkt í atkvæðagreiðslu í þinginu, gengur ekki upp og hv. þingmaður veit auðvitað miklu betur.

Hér kemur enn og aftur talsmaður Evrópusambandsins, sem vill að Ísland gangi í Evrópusambandið, og talar eins og evran sé eitthvert himnaríki. Ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér málið lítillega. Það er hægt að fara út í bókabúð, það er hægt að kaupa erlend tímarit og fletta upp stöðu evrunnar. Það skiptir engu máli hvort þú lest leiðarahöfunda eða fræðimenn til vinstri eða hægri, allir eru sammála um að evran sé í gríðarlega miklum vanda. Í örstuttu máli er þetta svona: Aðrar þjóðir, eins og Írar, sendu reikninginn til skattgreiðenda á meðan við létum bankana fara á hausinn. Það er búið að senda björgunarpakka til Grikklands, Írlands, Portúgals, hugsanlega til Spánar og jafnvel til Belgíu og Ítalíu. Þetta kostar allt fjármuni. Það er búið að setja upp sjóð með 750 billjónum evra og það er ljóst að það þarf að setja eitthvað meira í Grikkland. Portúgal kostar 100 billjónir. Ef Spánn fer þá eru það 600, þá er þetta búið.

Virðulegi forseti. Allir eru sammála um, hvort sem þeir eru til hægri eða vinstri, að þetta kerfi gengur ekki upp. Ég hvet hv. þm. Helga Hjörvar til að kynna sér hvað er í gangi og ég ætla að spyrja hann: Hvernig sér hann evruna lifa þetta af? Nokkrar leiðir eru nefndar. Hvaða leið vill hv. þm. Helgi Hjörvar fara? Ekki ætlar hann að bjóða kjósendum upp á það að þetta sé allt í himnalagi og þetta verði án breytinga eins og staðan er í dag. Ég trúi því ekki.