139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[20:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Á þeim stutta tíma sem við höfum til að ræða þessa annars mikilvægu skýrslu og þennan mikilvæga málaflokk ætla ég að impra á fjórum atriðum. Ég ætla að koma aðeins inn á NATO. Ég ætla líka að ræða Schengen, EES og loks ESB og aðildarumsóknina að Evrópusambandinu.

Ég vil fyrir það fyrsta segja að ein farsælasta ákvörðun sem tekin hefur verið í utanríkismálum okkar Íslendinga var tekin árið 1949 þegar við ákváðum að ganga til liðs við og vera þátttakendur frá upphafi í varnar- og öryggisbandalaginu NATO, friðarbandalagi, að mínu mati, sem hefur veitt okkur mikinn styrk. Það er sjálfsagt og eðlilegt að við verðum fullgildir meðlimir og tökum þátt af fullum krafti í því. Ég vil því fagna því sérstaklega hvernig hæstv. utanríkisráðherra hefur nálgast afstöðu okkar Íslendinga gagnvart Líbíu og þakka fyrir það hvernig hann hefur haft samstarfsflokk sinn, Vinstri græna, undir í því máli öllu. Afstaða Íslands er skýr. Við erum fullir þátttakendur í NATO, við styðjum varnar- og öryggisbaráttu bandalagsins og við viljum stuðla að friði í Evrópu og víðar og það gerum við að sjálfsögðu með því að lýsa yfir stuðningi við ákveðnar aðgerðir og vera ófeimin við það. Erfiðar ákvarðanir á stundum en ákvarðanir sem þarf að taka ef við ætlum að vera sjálfstæð og ábyrg þjóð.

Ég vil koma aðeins inn á EES-samninginn. Ég er í EFTA-nefndinni og við fundum reglulega, eins og hæstv. ráðherra þekkir frá fyrri tíð, og eitt og annað kemur fram á þeim fundum. Það liggur ljóst fyrir að Norðmenn eru að gera mjög yfirgripsmikla úttekt á stöðu EES-samningsins. Liechtenstein er líka að gera hið sama.

Það er ljóst að afstaða, meðal annars utanríkisráðherra Norðmanna, Jonasar Gahr Støre, varðandi stækkun EFTA, sem hefur á tíðum borið á góma, er ekki jákvæð og ég held að hann hafi undirstrikað það á síðasta fundi að mig minnir. Það blasir hins vegar við að mjög líklegt er að breytingar þurfi að gera á EES-samningnum til að tryggja góða virkni samningsins af því að ýmislegt hefur breyst frá því við fullgiltum hann á sínum tíma, hann tók gildi 1994. Ég vil gjarnan vita afstöðu hæstv. utanríkisráðherra til hugsanlegrar breytingar á EES-samningnum, ekki til stækkunar á EFTA heldur til hugsanlegrar breytingar á EES-samningnum sem við þurfum hugsanlega að ræða um fyrr en síðar, ekki síst þegar þessi skýrsla í haust liggur fyrir af hálfu Norðmanna. Ég vil gjarnan fá að heyra viðhorf hæstv. ráðherra til þessa.

Annað mál, kannski aðeins minna mál, er það sem bar á góma varðandi Norðmenn sem er sérstakt að því leytinu til að Norðmenn, þ.e. síðasti landsfundur Verkamannaflokksins norska, ákvað að innleiða ekki, og samþykkti gegn forustu flokksins, tilskipun um póstmál. Þá lítur út fyrir að ríkisstjórn Noregs neiti að innleiða EES-gerð varðandi póstmálin og er það þá í fyrsta sinn í sögu EES-samningsins sem það gerist. Ég vildi gjarnan fá viðbrögð hæstv. ráðherra við þessu og þá hvaða áhrif þetta kunni að hafa á EES-samninginn.

Ég vil líka koma aðeins inn á Schengen og taka undir það að ég tel að Schengen hafi á sínum tíma verið rétt skref. Það var umdeilt skref en ég tel að það hafi verið rétt skref ekki síst með tilliti til þess víðtæka og mikla samstarfs sem við Íslendingar höfum getað farið í á grundvelli samningsins og inn í lögreglumálin, inn í öryggismál o.fl. En þessi samningur hefur að sjálfsögðu ekki verið gallalaus. Ég held að menn sjái fram á ákveðna galla á samningnum og forustumenn stórra ríkja innan ESB, Sarkozy og Berlusconi, hafa gefið yfirlýsingar um að breyta beri Schengen. Ég vildi gjarnan fá afstöðu hæstv. utanríkisráðherra til þeirra yfirlýsinga sem þar birtust en ég vil líka benda á að það þarf ekkert endilega að kollvarpa Schengen því Schengen hefur í dag í sér fólgna ákveðna möguleika fyrir ríki til að loka landamærum, til að bregðast við ákveðnum hættum, ákveðnum ógnunum. Það er sjálfsagt að ríki geti notað slík ákvæði ef þau telja þess þurfa. Danir hafa til að mynda farið í að herða reglur þegar kemur að innra eftirliti á landamærum sínum og það er fullkomlega eðlilegt að mínu mati. En ég vil gjarnan fá viðhorf hæstv. utanríkisráðherra gagnvart breytingum á Schengen og Schengen-samstarfinu öllu.

Varðandi ESB, og það hefur kannski verið heitasta málið eins og oft er sagt í dag — ég vil undirstrika að ég tel tvímælalaust rétt að halda áfram því ferli sem hafið er. Mér líkar ávallt illa að segja „ef“ og „hefði“ en ég ætla engu að síður að fara aðeins í þann leiðangur líka. Ég vil undirstrika að við sjálfstæðismenn lögðum á sínum tíma til tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Tillaga okkar sjálfstæðismanna, um að bera aðildarumsóknina fyrst undir þjóðina, hefði betur verið samþykkt því að þá væri ekki þessi hringlandi og þessi dómadagsvitleysa sem stundum er í umræðunni verið sett fram á undanförnum dögum og missirum, þ.e. við hefðum haft skýran vilja þjóðarinnar frá upphafi. Það var ekki gert. Meiri hluti lýðræðislega kjörins þings samþykkti að fara í þennan leiðangur. Gott og vel, ég tel tvímælalaust að við eigum að halda þeim leiðangri áfram. Mín skoðun er sú, og hún hefur ekkert breyst, að þetta muni taka nokkurn tíma. Sumir voru að tala um tvö ár á sínum tíma, ég taldi það alltaf vera allt of skamman tíma. Mér finnst líklegt að þetta taki 3–5 ár, þ.e. að þetta verði kringum 2013–2014. Sumir eru bjartsýnni en ég tel að meginmálið sé það að einblína ekki á tímann heldur að hin pólitísku öfl á þingi og í samfélaginu reyni að einbeita sér að því að ná sem hagfelldustum samningi fyrir okkur Íslendinga þannig að þetta snúist um það sem mér er kært í öllum öðrum málaflokkum, þ.e. að byggja undir val einstaklinga í samfélaginu. Með því að draga umsóknina til baka værum við að mínu mati að takmarka val þjóðfélagsþegnanna, einstaklinganna í samfélaginu, til að ákveða og marka skref til lengri tíma litið, hvort sem þeir segja nei eða já, bara að þeir fái þetta val þegar þar að kemur.

Nú á síðustu dögum tel ég að mjög stórt skarð hafi verið hoggið í þetta ferli með væntanlegu frumvarpi um sjávarútvegsmálin og það er eins og við sjálfstæðismenn megum ekki nefna sjávarútvegsmálin í þessu samhengi. Sumir segja að frumvörpin, sem munu brátt liggja fyrir, séu hugsanleg leið hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóns Bjarnasonar, til að liðka fyrir samningsfyrirvörunum. En öðruvísi mér áður brá af því að þetta er einfaldlega sú leið að verið er að innleiða kerfi ESB, þ.e. Evrópusambandsins. Ég tel hins vegar að mun erfiðara verði fyrir okkur að gæta hagsmuna okkar þegar við getum ekki lengur sýnt fram á að við séum með sjálfbæran sjávarútveg. Ég tel að þau drög sem liggja fyrir muni höggva að þeirri sjálfbærni sem við höfum byggt upp undanfarna áratugi. Ég tel að þau drög sem liggja fyrir muni minnka rekstrarhagkvæmni sjávarútvegsins og hvetja til offjárfestingar. Hvernig ætlum við þá að sýna fram á það að við þurfum sérlausnir í sjávarútvegi þegar búið er að rústa sjávarútveginum heima fyrir. Ég trúi því ekki að óreyndu að hæstv. utanríkisráðherra átti sig ekki á því sem þetta stóra mál snýst um, þ.e. sjávarútveginn. En okkur mun gefast tækifæri síðar til að ræða þessar vanhugsuðu tillögur af hálfu ríkisstjórnar.

Ég undirstrika það að ég styð ráðherra í því að halda áfram þeirri vegferð að ná aðildarsamningi við Evrópusambandið því að við treystum því að þjóðin fái það tækifæri og muni geta ráðið ráðum sínum um það hvort okkur sé betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins. Þá skiptir miklu máli að eftir að þessi lýðræðislega ákvörðun var tekin, sumarið 2009 í júlí, að við sýnum þá ákveðna festu en ekki hringlandahátt í íslenskum utanríkismálum. Það verður ekki gert með því að draga aðildarumsókn til baka og þar af leiðandi taka val af fólkinu til lengri tíma litið, val um það hvort það vilji vera innan eða utan Evrópusambandsins.