139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[21:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal aðeins útskýra þetta með sjávarútveginn. Það er ljóst að hann er stærsta málið fyrir okkur að ná niðurstöðu í gagnvart ESB. Það byggir m.a. á því að Evrópusambandið sýni skilning á því hversu mikilvægur sjávarútvegurinn er fyrir okkur Íslendinga, ekki bara efnahagslega heldur hefur hann líka tilfinningalegt gildi fyrir okkur. Það verður mjög erfitt að mínu mati að sýna fram á að hagsmunir okkar Íslendinga séu mjög ríkir þegar kemur að sjávarútveginum þegar búið er að kippa stoðunum undan honum hér heima. Við getum ekki sýnt fram á að hann sé jafnrík stoð fyrir okkur í samfélaginu þegar búið er að rústa honum. Það verður því erfitt að fá ESB til að skilja hvað við eigum við þegar kemur að því að ræða mikilvægi sjávarútvegsins.

Ég vil aðeins koma að EES-málunum aftur og samningnum og taka undir það sem hæstv. ráðherra sagði fyrr í dag varðandi það að þingið ætti að hafa starfsmann þar núna í ljósi aukins mikilvægis Evrópuþingsins í Brussel. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann telji ekki rétt að fara eftir þeirri skýrslu sem utanríkismálanefnd gerði á sínum tíma um að virkja betur vinnuna innan þingsins sem utan til að nýta alla kosti EES-samningsins, reyna að vinna líka á þeim vettvangi en ekki bara á þeim vettvangi sem snertir aðildarviðræðurnar. Við þurfum um sinn allavega, hugsanlega í tvö til þrjú ár, kannski lengur, að byggja á EES-samningnum. Væri þá ekki gott að halda áfram að knýja á um að nýta það regluverk og þau tæki og tól sem hann býður okkur upp á en við nýtum ekki?