139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[21:10]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil í ræðu minni um skýrslu hæstv. utanríkisráðherra Össurar Skarphéðinssonar, um utanríkis- og alþjóðamál, fjalla um þátttöku Íslands í að bæta mannréttindi í heiminum.

Í upphafi fagna ég því að hæstv. utanríkisráðherra hafi í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2010 lagt megináherslu á mannréttindi. Ísland er herlaus þjóð og hefur valið að berjast fyrir hagsmunum sínum með friðsamlegum hætti. Við vitum og höfum sýnt í verki að við teljum mannréttindi grundvöll lýðræðis. Við erum lítil þjóð sem eigum oft annars konar hagsmuni en stórar þjóðir sem eru með flókin hagsmunatengsl við mörg ríki af sögulegum ástæðum vegna hernaðaríhlutunar o.fl. Við höfum þar af leiðandi tækifæri til að taka á málum með öðrum hætti en stærri þjóðir. Ég tel mjög mikilvægt að við sem lítið land nýtum sérstöðu okkar á alþjóðavettvangi.

Það eru nokkur mál sem mig langar að drepa á. Ég ætlaði fyrst að byrja á því að ræða hina nýju stofnun UN Women þar sem fjórum stofnunum sem varða málefni kvenna innan Sameinuðu þjóðanna hefur verið steypt saman í eina. Ég vona að það verði til þess að efla samþættingu jafnréttismála í öllu starfi Sameinuðu þjóðanna og að markmiðið náist sem er m.a. að efla forustuhæfileika kvenna og aðkomu þeirra að ákvarðanatöku, vinna gegn ofbeldi gegn konum, styðja við innleiðingu áætlana um konur, frið og öryggi samkvæmt samþykkt öryggisráðsins nr. 1325. Þessari nýju stofnun er einnig ætlað að styðja efnahagslega valdeflingu kvenna og stuðla að kynjajafnrétti þannig að það verði miðlægt í allri áætlana- og fjárlagagerð, rétt eins og verið er að vinna að á Íslandi með samþættingu kynjasjónarmiða og víða annars staðar um heiminn, m.a. í Evrópusambandinu.

UNIFEM er ein þeirra stofnana sem fer þarna undir og það er rétt að halda því til haga að landsnefnd UNIFEM á Íslandi hefur verið mjög virk deild og sent marga fulltrúa víða um heim til að stuðla að þátttöku kvenna í friðaruppbyggingu og allra handa aðstoð og fræðslu. Það er mjög mikilvægt að landsdeildin hér á landi njóti áframhaldandi stuðnings utanríkisráðuneytisins til að geta beitt sér á alþjóðlegum vettvangi. Til þess hefur verið tekið hversu sterk Íslandsdeildin í UNIFEM er.

Ég nefndi lítillega áðan ályktun öryggisráðsins nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Það má geta þess að í áætlun hv. utanríkismálanefndar um jafnréttismál til fjögurra ára er tillaga um framkvæmd Íslands í þeim efnum og kom nefndin með breytingartillögu til að skerpa á áherslum á jafnréttismál. Í breytingartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Ísland efli jafnframt stöðu sína sem málsvari málaflokksins á alþjóðavettvangi bæði í marghliða og tvíhliða starfi með frumkvæði, sterkum áherslum og eftirfylgni á grundvelli framkvæmdaáætlunarinnar. Markvisst verði unnið að því að fræða starfsfólk utanríkisráðuneytisins og friðargæsluliða í málefnum öryggisráðsályktunar 1325 og tengdra ályktana.“

Í þessari skýrslu er rætt með hvaða hætti ráðuneytið hefur komið að því að vinna að markmiðum ályktunarinnar. Eins og sjá má á þessari tillögu í jafnréttisáætluninni má ganga mun lengra í þeim efnum þó að margt gott hafi þegar verið gert. Ég hvet hæstv. utanríkisráðherra til að setja enn meiri kraft í þá vinnu.

Ég fagna líka einarðri afstöðu hæstv. utanríkisráðherra þegar hann andmælir mannréttindabrotum gagnvart samkynhneigðum, bæði í Malaví og nú síðast í Úganda. Meginmarkmið laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands eru að útrýma fátækt og hungri og stuðla að efnahagslegri og félagslegri þróun, þar með talið mannréttindum. Það er mikilvægt að muna að við erum í þróunarsamvinnu við nokkur ríki, þar á meðal Malaví og Úganda. Meðal þeirra hópa sem búa við mikið misrétti þar eru samkynhneigðir. Aðeins hefur verið rætt um stöðuna í Úganda á vettvangi þingsins og hvort Ísland ætti jafnvel að draga sig út úr þróunaraðstoð til þessara ríkja. Ég aðhyllist þá skoðun að ekki sé rétt að gera slíkt fyrr en í fulla hnefana heldur eigi að vinna með öðrum hætti að því að fá ríki til þess að virða mannréttindi. Í skýrslunni kemur fram að eftir að tveir menn höfðu verið dæmdir í 14 ára fangelsi í kjölfar þess að þeir héldu veislu til að fagna trúlofun sinni skrifaði hæstv. utanríkisráðherra bréf til forseta Malavís og hvatti hann til að beita sér í þessu máli. Bréf hæstv. utanríkisráðherra sem og þrýstingur víða olli því að forsetinn náðaði mennina tvo. Nú hvet ég hæstv. utanríkisráðherra til að leggjast yfir það með starfsfólki sínu í ráðuneytinu með hvaða hætti sé hægt að beita sér sambærilega í Úganda.

Nú hefur frumvarp til laga legið fyrir þinginu í Úganda þar sem það getur varðað lífstíðarfangelsi og jafnvel dauðadómi við endurteknum brotum að vera samkynhneigður og smita aðra af HIV. Frumvarpið leggur blátt bann við að tilkynna ekki samkynhneigð til yfirvalda og refsar öllum samtökum, einstaklingum og fyrirtækjum sem styðja mannréttindi samkynhneigðra. Fyrir liggur að forseti Úganda styður ekki þetta frumvarp og hefur það verið dregið til baka en hætta er á að það verði lagt fram aftur. Ég vil benda á að í Úganda hefur verið pólitískt umrót undanfarið og kann að vera að valdhöfum gagnist umræða af þessu tagi þar sem athyglinni er þá beint frá óánægju með stjórnvöld og óþægilegar stjórnarathafnir að jaðarhópum. Það er mjög mikilvægt að ríki eins og Ísland, sem eru í samvinnu við Úganda, sýni óánægju sína með þetta og hvetji til að allt sé gert til að vinna gegn því að svona frumvörp séu yfir höfuð lögð fram enda kveða þau á um andstyggileg mannréttindabrot og eru algjörlega andsnúin öllu því sem við viljum styðja og kannast við hér á landi og eiginlega í flestum ríkjum.

Mig langar að lokum að nefna háskóla Sameinuðu þjóðanna. Hér eru þrír skólar og sá fjórði er tilraunaverkefni, Alþjóðlegi jafnréttisháskólinn. Verkefnið hófst 2009 og hann stefnir að því að verða háskóli Sameinuðu þjóðanna árið 2012. Ég hvet hæstv. utanríkisráðherra til að beita sér fyrir því að svo geti orðið. Alþjóðlegi jafnréttisskólinn vinnur m.a. að fræðslu sem tengist ályktun 1325 um að styrkja konur í enduruppbyggingu eftir stríð og virkja þátttöku þeirra í því ferli og líta ekki bara á þær sem þolendur heldur gerendur. Eins hefur skólinn beitt sér í fræðslu um mannréttindi, þar á meðal mannréttindi samkynhneigðra.