139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[21:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar ræðu og hún kom víða við. Hún talaði hins vegar lítið um eitt mál sem mun nú kljúfa þjóðina og tekist er á um, sem eru aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu. Mér hefur þótt bæði hæstv. ráðherra og hv. þingmenn í stjórnarliðinu tala nokkuð frjálslega um Evrópusambandið og þá sérstaklega um það sem er veifað framan í atvinnulífið og almenning núna, þ.e. evruna.

Ég vildi spyrja hv. þingmann að tvennu. Það er annars vegar hvernig hann sér þau mál verða, því að eins og allir vita, nema kannski í þessum sal og kannski þeir sérfræðingar sem fjalla um málið hér á Íslandi — en ef við förum út fyrir Ísland er þetta mikið rætt — að þá er mikill vandi sem steðjar að evrusvæðinu sem er ekkert gleðiefni fyrir neinn. Það er ekkert gleðiefni fyrir Íslendinga hvort sem menn eru fylgjandi því að Ísland fari í Evrópusambandið eða ekki. Það er hins vegar fráleitt að tala um þessi mál án þess að menn líti á það hvað er að gerast þar og hvernig menn sjá þau mál þróast. Þeir sem ræða þau mál mest, og það er sama hvar í pólitíska litrófinu þeir eru, telja nauðsynlegt að fram fari breytingar. Menn eru missvartsýnir en ég hef ekki heyrt í neinum bjartsýnum aðilum.

Ég vildi í fyrsta lagi spyrja hv. þingmann að því hvernig hún sér þau mál þróast, sem snertir auðvitað framtíðarskipulag Evrópusambandsins. Sá sem vill að Ísland fari í Evrópusambandið verður þá að mínu áliti að vera með sína mynd skýra hvað það varðar.

Síðan er hitt sem varðar skoðanir hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar sem eru á þann veg að við gætum kosið um aðild Íslands að Evrópusambandinu á næsta ári. (Forseti hringir.) Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á því?