139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[21:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Á þeim stutta tíma sem ég hef — ég hef bara tíu mínútur — ætla ég að fara yfir ansi margt. Ég ætlaði fyrst að fara aðeins yfir þær áherslur sem ég tel að ættu að vera í utanríkismálum Íslands en þá áttaði ég mig á því að það er auðveldara um að tala en í að komast að klára það á nokkrum mínútum en ég ætla samt að reyna. Síðan ætla ég að fara aðeins yfir Evrópuumræðuna sem við komumst ekki hjá því að taka.

Ég held að í grunninn — ætli allir flokkar eigi ekki sök á því — hafi verið lagðar rangar áherslur í utanríkismálum sem hafa komið illa niður á okkur á margan hátt. Það er ekki bara stjórnmálaflokkunum um að kenna heldur líka þeim stofnunum sem við reiðum okkur á eins og háskólasamfélaginu. Ég held að það hefði verið nær fyrir okkur, og það er ekki of seint, að leggja fyrst og fremst áherslu á samstarf okkar við Færeyjar og Grænland. Mörgum finnst það kannski ekki metnaðargjarnt vegna þess að þar eru fámennar þjóðir en það eru þjóðir sem hafa reynst okkur vel þegar við höfum þurft á því að halda og við eigum sömuleiðis að reynast þeim vel. Það eru gríðarlegir hagsmunir hjá þessum þrem ríkjum og þau eiga að standa eins þétt saman og mögulegt er. Þau búa yfir miklum verðmætum hvað varðar auðlindir en sömuleiðis staðsetningu. Hæstv. ráðherra fór yfir samstarfið í orkumálum, það sama má segja um heilbrigðismál og á mörgum öðrum sviðum, þar höfum við ekki sinnt málum sem skyldi.

Að sjálfsögðu eigum við að rækta samstarf við aðrar Norðurlandaþjóðir. Mér er það sárt að sjá hvernig núverandi ríkisstjórn hefur fullkomlega klúðrað því að koma á einu norrænu heilsusvæði sem var eitt af helstu málunum þegar Ísland var í forustu í Norðurlandaráði árið 2009. Það hefur ekkert gerst í þeim málaflokki. Það er fullkomlega óþolandi. Í þeirri ríkisstjórn sem ég og hæstv. ráðherra vorum í var búið að fá samþykki allra ráðherra Norðurlandanna til að fara í það verkefni sem hefði þýtt að Svíi gæti t.d. komið hingað til lands til lækninga og fengið greitt úr sænsku tryggingastofnuninni ef við hefðum náð þeim árangri sem lagt var af stað með, fyrir utan samstarf í lyfjamálum og öðru slíku.

Annað sem við höfum fullkomlega vanrækt er samstarf við Bandaríkin og Kanada. Með endalausri áherslu á Evrópusambandið og með þessari Evrópuhyggju allri hafa menn gleymt því að Bandaríkin eru eina stórveldið í heiminum. Flestar þjóðir reyna að rækta sambandið við þá einstaklinga sem búa þar og rekja flestir ættir sínar til Evrópu, m.a. til Íslands. Þó svo að gott fólk hafi sinnt þessu vel, bæði Íslendingar í Kanada og Bandaríkjunum og er mér sérstaklega minnisstæður Thor Thors sem vinnur nú sjálfboðastarf hjá Sameinuðu þjóðunum fyrir Íslendinga (Gripið fram í.) og skilar gríðarlega miklu og góðu starfi og ýmsir aðrir eins og Einar Benediktsson, fyrrverandi sendiherra, og fleiri sem hafa ræktað tengsl þar í gegnum tíðina, þá er það engan veginn nógu skipulagt eða þannig að við getum nýtt okkur tengslin þegar við þurfum á því að halda. Ég tala nú ekki um samstarf í varnarmálum.

Við höfum gríðarlega möguleika í samstarfinu í EFTA. Við gætum t.d. nýtt samstarfið við bæði Sviss og Noreg betur til að auka fríverslun. Við breyttum um áherslur fyrir nokkrum árum og urðum sjálfstæðari í því að fara í fríverslunarsamninga. Ég er svolítið spenntur að fá að vita hvernig staðan er varðandi Kína vegna þess að Kínverjar hugsa til langs tíma eins og allir vita og fríverslunarsamningur við Kína mun sjálfkrafa falla niður ef við göngum í Evrópusambandið. Auðvitað eru fleiri þættir eins og þróunarlöndin, NATO og Sameinuðu þjóðirnar og síðan stórveldi eins og Kína og Indland — Kínverjar hafa sýnt okkur mikinn áhuga og Indverjar í sjálfu sér líka — en með þeim takmörkuðu tækjum sem við höfum, mannafla og öðru slíku, þurfum við að skipuleggja okkur vel og allt of mikil áhersla hefur verið á Evrópusambandið og öll umræða hér hefur gengið út á það. Þar höfum við meira að segja ekki sinnt því sem þarf því að Evrópuríkin eru samstarf sjálfstæðra þjóðríkja og þar eigum við að leggja rækt við stórveldin Þýskaland, Bretland og Frakkland sem stýra mestu í því ríkjabandalagi.

Virðulegi forseti. Ég náði ekki að prenta út það sem hæstv. ráðherra sagði áðan en hann sagði eitthvað á þá leið, eins og þeir sem eru fylgjandi því að Ísland gangi í Evrópusambandið, að öll ríki hefðu grætt á því að fara í ESB og allir vildu vera í ESB sem væru þar núna. Þetta er ekki rétt hjá hæstv. ráðherra. Flestar skoðanakannanir í Bretlandi benda til að almenningur vilji fara úr ESB og ef menn skoða skoðanakannanir frá undanförnum áratugum eykst óánægjan með Evrópusambandið upp á hvern dag. Ég var að veifa þessu áðan og ég held að enginn geti haldið því fram að það sé ekki úr virtum tímaritum. Er einhver á því að Foreign Affairs sé ekki virt tímarit? (Gripið fram í.) Daily Telegraph, er það blað sem menn taka ekki alvarlega? The Economist, taka menn það ekki alvarlega? Í Foreign Affairs eru miklir keynesistar að skrifa um evruna og Evrópusambandið, ekki Davíð Oddsson eins og hér hefur verið gripið til varna, heldur keynesistar. Þeir fara yfir að hugmyndin um evruna gangi ekki upp. Hér kom prófessor í boði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra frá Brown University, ef ég man rétt, í Bandaríkjunum og sagðist vera mjög fylgjandi Evrópusambandinu en hann sagði að evran væri vitlausasta hugmynd sem hann hefði nokkurn tíma vitað um. Sama dag og hann sagði það á ráðstefnu sem ég var á sagði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í fjölmiðlum að evran væri eina vonin fyrir Ísland, en það er annað mál. Ég var í Bretlandi um helgina. Þar kom t.d. fram að Bretar ætluðu ekki að borga meira með evrunni. Þeir eru ekki einu sinni með evru en hafa þurft að borga gríðarlegar fjárhæðir vegna hennar.

Staðan er einfaldlega þessi: Það er búið að setja fjármuni í Írland og Grikkland. Það þarf að setja meira í Grikkland. Það er búið að setja á stofn sjóð með 750 billjónum evra. Það þarf 50–100 í Portúgal. Ef Spánn lendir í kröggum þarf 600 billjónir evra þangað og þá er þessi sjóður búinn því að það þarf að setja meira í Grikkland. Svo skulum við bara vona að Spánn lendi ekki í erfiðleikum og því síður Belgía og Ítalía eins og menn hafa áhyggjur af.

Það skiptir engu máli hvort menn skrifa til hægri eða vinstri — þá á ég að vísu við hægri eða vinstri í litrófinu — það eru allir sammála um að þetta gangi ekki upp nema menn stórauki miðstýringu á vegum Evrópusambandsins og stórauki pólitísk og efnahagsleg völd Evrópusambandsins þannig að það geti fylgt eftir peningastefnunni og gjaldmiðlastefnunni í aðildarríkjunum.

Virðulegur forseti. Hér tala fulltrúar ríkisstjórnarinnar eins og þetta sé ekki að gerast. Ég held að allir sem hafa hlustað á þessar umræður í dag hafi ekki heyrt einu orði minnst á þetta. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra má ekki opna munninn án þess að tala um að það sé nauðsynlegt að taka upp evruna. Hvaða evru? Ég held að ef Íslendingar, háskólasamfélagið og ríkisstjórnin sem eru nátengd eða alla vega þeir sem tala hvað mest, eru með lausnina eigi þeir að láta vini okkar í Evrópu vita. Þeir eru í miklum kröggum og hafa miklar áhyggjur. Ef Íslendingar, sjálf Samfylkingin, er með lausnina, ekki liggja á henni.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig sér hann þetta fyrir sér? Er fólkið sem skrifar í hvert einasta blað og kemur fram í hverjum einasta erlendum fjölmiðli og hefur áhyggjur af þessu alveg úti á túni? Ef menn vilja að Íslendingar gangi í Evrópusambandið út af evrunni, því að það er bara einn hv. þingmaður sem hefur komið og sagst vilja ganga í Evrópusambandið út af Evrópuhugsjóninni og það er hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, aðrir hafa komið og sagt að það sé efnahagsleg nauðsyn og svo svakalega praktískt fyrir okkur, væntanlega svipað praktískt og að segja já við Icesave, verða þeir eins og hæstv. ráðherra, sem segir helstu rökin vera efnahagsleg, eðli málsins samkvæmt að útskýra fyrir (Forseti hringir.) okkur þróunina á evrunni. Hvernig sér hæstv. ráðherra þetta, sem telur að við getum tekið evruna upp, hver sem hún er, þremur árum eftir að (Forseti hringir.) meint aðildarumsókn verður samþykkt, ef það gerist?