139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[21:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil endilega að hæstv. ráðherra fari betur í evruna því að hæstv. ráðherra er sá maður sem þekkir þetta best af öllum. Menn segja að ég leggi hlutina út með þessum hætti en það eina sem ég gerði var að vitna í þessar greinar. Ég ætla ekki að biðja menn afsökunar á því að ég kynni mér málin. Ég sá bara ekki eina einustu grein þar sem menn töluðu á sömu nótum og hæstv. ráðherra. Það getur vel verið að þær greinar séu til en ég hef ekki fundið þær.

Ég held að hæstv. ráðherra þurfi eðli málsins samkvæmt að leggja upp hvernig hann sér þetta fyrir sér. Umræðan gengur út á að þetta gangi ekki upp nema — og keynesistarnir leggja mikið upp úr því — að miðstýringin í Evrópusambandinu sé aukin, að í sáttmála Evrópusambandsins verði að setja vald til stofnana í Evrópusambandinu til að taka fleiri ákvarðanir í tengslum við efnahagsstjórnina. Annars geti þetta ekki gengið upp. Nú þegar nota menn bara hnefaréttinn til að pína Íra til að hækka skatta á fyrirtækjum gegn því að fá lægri vexti og pína Grikki til að einkavæða fyrirtæki með því að lækka vexti. Það er gert með handafli stóru þjóðanna á leiðtogafundunum eins og við þekkjum. Vilji er til þess að auka miðstýringuna í (Forseti hringir.) Evrópusambandinu, auka völd Evrópusambandsins.

Hæstv. ráðherra getur ekki (Forseti hringir.) boðið mönnum upp á að hann kannist ekki við þessa umræðu (Forseti hringir.) og ég trúi ekki öðru en hæstv. ráðherra hafi (Forseti hringir.) mjög ákveðnar skoðanir á þessu. Annað er útilokað.