139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[21:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður er nýkominn frá Bretlandi eins og fram kom í ræðu hans og er mjög áhyggjufullur, hafandi fylgst með umræðunni í fjölmiðlum þar um stöðu evrunnar og þar af leiðandi Evrópusambandsins. Ég get vel skilið þetta vegna þess að sjálfur hef ég upplifað það að fara til útlanda og sjá umræðuna þar.

Ég velti fyrir mér: Hvernig stendur á því að eins mikil og þessi umræða er úti — og hv. þingmaður kom með bunka af erlendum dagblöðum og tímaritum með sér — og fer ekki fram hjá nokkrum manni sem ferðast til útlanda, að svona lítið er rætt um þetta á Íslandi? Maður skyldi ætla að Íslendingar, sem eru í umsóknarferli, hlytu öðrum þjóðum fremur að velta þessum hlutum fyrir sér og hafa af þeim áhyggjur. Af hverju er þetta ekkert rætt hér?

Ég fór einu sinni til Austur-Þýskalands á meðan það var og hét og þar voru ýmsar leiðbeiningar um hvernig menn ættu að haga sér, hvað mætti gera og hvað ekki. Eitt af því sem mátti ekki gera var að hafa erlend dagblöð með sér inn í landið. Sérstaklega var varað við því, ef blöðin slæddust með, að sæist í þau í gegnum bílrúðuna. Fólk mátti ekki verða vart við umfjöllunina í þeim.

Maður fer að hafa áhyggjur af því að Íslendingar fari á mis við umfjöllun um sum mál og sérstaklega þetta stórkostlega vandamál sem er staða evrusvæðisins og áhyggjurnar sem menn hafa af því um alla Evrópu. Hvernig stendur á því að þessi umræða nær ekki til Íslands nema að mjög takmörkuðu leyti?