139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[22:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það er vissulega vandamál hversu mikill skortur er á gagnrýninni og fjölbreytilegri umræðu á Íslandi. Hugsanlega er það vegna þess að í umræðunni er ákveðinn hringur, sama fólkið er alltaf að tala í hring. Það er áhyggjuefni.

Ísland er í þessu mikla ferli en ég held að það gæti líka verið fróðlegt fyrir Evrópusambandið að meta stöðu sína í ljósi reynslu Íslendinga. Nú er staðan sú að gríska ríkið skuldar grískum bönkum heilmikið. Grísku bankarnir skulda síðan þýskum og frönskum bönkum gríðarlegar upphæðir. Fyrir vikið vilja Þjóðverjar alls ekki að grísku bankarnir fari í þrot og þar af leiðandi að gríska ríkið fari ekki í þrot. Þeir vilja halda allri umræðu um vandann niðri og veita lánsfé í von um að eitthvað gerist sem leysi vandann án þess að vita í rauninni hvað það ætti að vera vegna þess að ef vandinn heldur áfram er erfitt að sjá hvar hann stöðvast. Allt er þetta samhangandi.

Í mynd sem fylgdi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var búið að teikna línur sem tengdu saman hin ýmsu fyrirtæki, hagsmunatengsl þeirra þvers og kruss. Ég hef séð nákvæmlega sams konar mynd fyrir evrópsku bankana og evrópsku ríkin sem eru öll háð hvert öðru innbyrðis. Ef þetta tengslanet byrjar að rakna upp er erfitt að segja hvar það endar. Þess vegna er þetta svo mikið áhyggjuefni.

Í lokin vil ég spyrja hv. þingmann, af því að hann nefndi EFTA, hvernig hann telji að standi á því að varla er minnst á EFTA í þessari miklu bók sem utanríkisráðherra gaf út í dag. Ég held að í mesta lagi séu sjö línur um EFTA á meðan fjölmargir (Forseti hringir.) kaflar eru um Evrópusambandið sem Íslendingar eru ekki aðilar að.