139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[22:05]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Ég verð að gera þá játningu, virðulegi forseti, strax í upphafi ræðu minnar að ég kenndi eiginlega í brjósti um hæstv. utanríkisráðherra þegar hann flutti skýrslu sína um utanríkis- og alþjóðamál. Ekki það að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki borið sig vel eins og hann jafnan gerir, jafnvel þegar hann er að verja vondan málstað. Hæstv. ráðherra flutti skýrslu sína af nokkrum þrótti en engu að síður — úr því að hæstv. ráðherra er genginn hér í salinn — þá kenndi ég eiginlega í brjósti um hann. Það er vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra er að flytja hér skýrslu sína um utanríkis- og alþjóðamál sem nýtur ekki stuðnings í hans eigin ríkisstjórn í helstu grundvallaratriðum. (Utanrrh.: Er þetta ekki bara eins og …?)

Ég hef margoft tekið þátt í umræðum um skýrslur forvera hæstv. utanríkisráðherra á umliðnum árum og ég hygg að það sé einsdæmi að hér á Alþingi sé flutt skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál sem svo mikill ágreiningur er um, þ.e. í núverandi ríkisstjórn sem þessi sami hæstv. utanríkisráðherra situr í.

Eins og gefur að skilja, virðulegi forseti, eru margir sem klóra sér í höfðinu yfir störfum og stefnu ríkisstjórnarinnar í mörgum málaflokkum og þar er af nógu að taka. Fyrir okkur sem stöndum utan ríkisstjórnarinnar er í raun vonlaust að fá einhvern botn í það hver stefna ríkisstjórnarinnar er í utanríkis- og varnarmálum og alþjóðamálum því að hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar virðist vera nánast fyrirmunað að vera sammála um grundvallaratriði á því sviði. Evrópusambandsmálið er eitt dæmi.

Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu, ætli það hafi ekki verið í júní árið 2009. En hæstv. ríkisstjórn og ráðherrar hennar eru klofnir í því máli því að annar stjórnarflokkurinn styður ekki aðild Íslands að ESB. Síðan er staðfest, virðulegi forseti, að sumir hv. þingmenn stjórnarliðsins samþykktu umsóknina um aðild að Evrópusambandinu með óbragð í munni. Nú hefur verið staðfest, sem lítið hefur verið talað um í umræðunni í dag, að meira að segja hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, hefur lýst því yfir að það hafi verið mistök að samþykkja aðildarumsókn. Þar fyrir utan hefur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lýst andstöðu sinni við aðildarumsóknina og berst gegn henni með kjafti og klóm. Á sama tíma stendur hæstv. utanríkisráðherra hér, sem situr með þessum tveimur hæstv. ráðherrum í ríkisstjórn, og heldur innblásnar ræður um Evrópusambandið og hversu mikið gæfuspor það var fyrir okkur Íslendinga að sækja um aðild að því sambandi.

Afstaða mín til þeirrar aðildarumsóknar er þekkt. Ég er á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég tel að það hafi verið mistök af hálfu Íslands og meiri hluta Alþingis að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ég styrkist í þeirri trú eftir því sem dagarnir og vikurnar líða. Á það hefur verið minnst í umræðunni að illa verði komið fyrir sjávarútvegsmálum í þessu landi verði frumvörp hæstv. sjávarútvegsráðherra að lögum. Það er kannski planið hjá hæstv. ríkisstjórn að rústa sjávarútveginum áður en Ísland gengur í Evrópusambandið svo að það ágæta samband þurfi ekki að taka það verkefni að sér.

Það eru auðvitað fleiri atriði í þessum Evrópumálum sem gera mann enn skeptískari en áður. Staðan í Evrópu í löndum eins og Portúgal, Grikklandi og Írlandi er ekki þess eðlis að ástæða sé til að vera sérstaklega bjartsýnn um framtíð Evrópusambandsins. En það sem að okkur Íslendingum snýr og þá kannski helst þinginu er með hvaða hætti hæstv. ríkisstjórn hefur haldið á þessari aðildarumsókn og hvernig hún hefur staðið að því aðlögunarferli sem hefur verið í gangi.

Hér fyrir nokkrum dögum lýsti hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir því yfir að umsóknarferli Íslands að Evrópusambandinu væri eitthvert það opnasta sem þekktist í Evrópulöndunum. Ég tel að slík yfirlýsing hafi í rauninni ekki falið í sér neitt annað en beina ósvífni vegna þess að meiri hlutinn á þinginu gerir allt sem hann getur til þess að reyna að þagga niður umræðu um þetta mál og hylja það leynd og pukri eins og vinnubrögð sameiginlegu þingmannanefndarinnar bera glöggt merki. Jú, það er rétt að fundir þeirrar nefndar eiga að vera opnir en þeir eru auglýstir á undirsíðum á heimasíðu Alþingis en fjölmiðlar landsins, hagsmunaaðilar og þeir sem hafa áhuga á málaflokknum eru ekki látnir vita af þeim fundum sem eiga þó að vera opnir. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um Evrópumálin, afstaða mín í því sambandi er þekkt, en ég nefni þau sem dæmi um það hversu illa er komið fyrir ríkisstjórninni í utanríkismálum.

Aðgerðir NATO gegn stjórn Gaddafís í Líbíu eru annað dæmi. Þær aðgerðir njóta að því er sagt er stuðnings íslensku ríkisstjórnarinnar en engu að síður hafa ráðherrar Vinstri grænna lýst andstöðu sinni við þær og andstöðu sinni við aðild Íslands að NATO, sem Samfylkingin styður. Nýverið lýsti hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, sem er auk þess varaformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, því opinberlega yfir í pistli á vefritinu Smugunni að ekki væri stjórnarmeirihluti fyrir utanríkismálapólitík Íslands, þ.e. að utanríkismálapólitískur meiri hluti á Alþingi væri annar en stjórnarmeirihlutinn. Þessu lýsti hún yfir þann 4. maí árið 2011 á vefritinu Smugunni sem ég held að sé málgagn Vinstri grænna. Þetta er auðvitað alvarlegt mál. Dæmin eru svo sem fleiri um þann ágreining sem uppi er í ríkisstjórninni varðandi utanríkismál og þarf í sjálfu sér ekki glöggan mann til að átta sig á því að ríkisstjórnin er klofin í herðar niður í þeim málaflokki.

Það er afleitt fyrir okkur sem hér störfum, það er afleitt fyrir þjóðina og það er beinlínis vandræðalegt fyrir Ísland gagnvart þeim þjóðum sem við eigum í samskiptum við á alþjóðavettvangi að ríkisstjórnin sé svona ósamstiga þegar kemur að utanríkismálum. Það snýr bæði að aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu og öðru því alþjóðasamstarfi sem við tökum þátt í. Það er eins og að í utanríkismálum séu tvær ríkisstjórnir starfandi í landinu. Þetta er auðvitað ekki boðlegt þegar kemur að þeim mikilvæga málaflokki. Þetta er sá galli á þeirri skýrslu sem hæstv. utanríkisráðherra hefur hér lagt fram og flutt. Vissulega er þetta skýrslan hæstv. ráðherra en hún lýsir ekki nema að litlu leyti sameiginlegum stefnumálum ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum.

Það er þó eitt atriði sem ég tel jákvætt í skýrslunni. Það er umfjöllunin um norðurskautsmálin. Þau eru mér dálítið hjartfólgin vegna þess að ég starfaði á þeim vettvangi um nokkurra ára skeið og ég fagna þeim áfanga sem náðst hefur í samskiptum þeirra ríkja sem eiga aðild að norðurskautsmálunum í tengslum við öryggis- og björgunarmál, sem ég hygg að hafi verið undirritaður samningur um á Grænlandi fyrir nokkrum dögum og Jonas Gahr Støre gerði grein fyrir í fréttum sjónvarpsins í kvöld. Þetta eru hlutir sem ég fjallaði um á þeim vettvangi árið 2007. En ég vil brýna hæstv. utanríkisráðherra að reyna að standa vörð um hagsmuni okkar í norðurskautsmálum. Þeir eru gríðarlegir, ekki bara út af björgunar- og öryggismálum, umhverfismálum og að siglingaleiðir opnist norður fyrir Rússland eða Kanada, heldur verður í framtíðinni tekist mjög harkalega á um þær auðlindir og þá hagsmuni sem í húfi eru á norðurskautinu. (Forseti hringir.) Ég er ansi hræddur um að áhugi Evrópusambandsins á því að fá Ísland í Evrópusambandið snúist fyrst og fremst um að koma höndum yfir þá miklu hagsmuni sem Íslendingar hafa á þessu sviði og í þessum málaflokki.