139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[22:26]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Þó að langt sé liðið fram á kvöld og umræðum að ljúka tel ég það kvöldsins virði að hafa það undir umræðu um þessa mikilvægu skýrslu sem hæstv. utanríkisráðherra flytur þinginu einu sinni á ári, skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. Þetta er mjög víðfeðm skýrsla og umfangsmikil. Þetta er breitt svið. Það er í henni yfirlit yfir helstu verkefni sem eru á ábyrgð utanríkisráðuneytisins, allt frá lýsingu á aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og að Íslandsstofu og EXPO 2010. Ég er ekki að gera lítið úr þeim verkefnum, en það er allt þarna á milli. Lengsti kaflinn til að byrja með fjallar um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu sem má telja eðlilegt, því að þetta er nú stærsta einstaka aðgerðin sem við höfum sem þjóð staðið fyrir, þ.e. að senda inn umsókn að Evrópusambandinu. Sú umsókn var samþykkt hér á Alþingi eins og farið hefur verið yfir. Umsóknin er í ákveðnu umsóknarferli samkvæmt reglum Evrópusambandsins sem er sett alveg niður, þannig að það á að vera hægt að sjá frá upphafi til enda hvernig það gengur fyrir sig, sjálft ferlið.

Fram að þessu hefur ákveðin rýnivinna farið fram, verið að bera saman regluverk Evrópusambandsins og regluverkið hér og hvað út af stendur, síðan hafa verið sett fram þau samningsmarkmið sem við Íslendingar höfum sett fram í afgreiðslu Alþingis á umsóknaraðildinni á sérstöku þingskjali. Ef þetta gengur allt eftir líður að því nú síðsumars að sjálft samningaferlið hefjist. Náðst hefur samkomulag um það að flóknir og erfiðir kaflar komi til meðferðar fyrst og að hverjum kafla sé þá lokið. Það heitir að ljúka kaflanum eða loka honum. Ef ekki næst samkomulag, er þeim kafla ekki lokað. Því segi ég það að þessu starfi mun vinda áfram og samningar hefjast. Annaðhvort verður hverjum kafla lokað eða ekki. Ég tel að náist ekki samkomulag eða samningar um þessa fyrstu kafla sem eru erfiðastir og flóknastir, verði þeim ekki lokað, hljóti þeir að koma hingað inn til þingsins. Öðruvísi er ekki hægt að ganga frá samningi nema hægt sé að loka þeim kafla samkvæmt þessu ferli, það er minn skilningur á málinu.

Ég er sjálf, eins og langflestir í mínum stjórnmálaflokki, andvíg aðild að Evrópusambandinu, en við höfum undirgengist það og tökum þátt í því að ganga þessa leið og ljúka henni, annaðhvort með samningum eða eins og ég sagði hér áðan að láta þá á það reyna hvort þeir nást. Ég tel ekki ráðlegt úr því farið var í þessa för að hætta henni í miðjum klíðum. Ég tel að við þurfum að fá botn í þetta. Úr því lagt var af stað þá skulum við klára þetta og þjóðin greiði síðan atkvæði um niðurstöðurnar. Við ljúkum þessu þá að sinni að minnsta kosti.

Ég tel að það sé ekki neinum blöðum um það að fletta að Evrópusambandið hefur verið í ákveðnu ferli, ákveðinni þróun, og sé jafnt og þétt að þróast að sambandsríki í stað þess sambands sem stofnað var til í upphafi; og í mínum huga umlykur Schengen-múrinn þetta verðandi sambandsríki. Ég hef alla tíð lýst þeirri skoðun minni að við hefðum ekki átt að ganga í Schengen og orðið tímabært að endurskoða þá ákvörðun, rétt eins og Frakkland og fleiri ríki eru núna að gera, vilja ganga úr Schengen eða endurskoða þann samning eða það fyrirkomulag allt, því að í þeim ófriði sem víða geisar hefur flóttamannastraumur verið mikill. Sum ríki vilja komast undan því að taka á móti bylgju af flóttamönnum. Ég tel aftur á móti að við þyrftum að geta varist miklu betur bylgju og áhuga skipulagðra glæpafélaga eða glæpahringja á að komast hingað inn og koma sér fyrir hér á landi, sem lögreglan hefur margoft varað við að sé í gangi. Við sjáum í dagblöðum og fréttum frá lögreglunni hvernig samfélagið er að breytast með skipulagðri glæpastarfsemi sem er jafnvel skipulögð erlendis frá. Ég tel því tímabært að taka upp miklu betri varnir en við höfum möguleika á í dag og að við eigum að skoða það mjög alvarlega að segja okkur úr Schengen-samstarfinu.

Eins og ég sagði, hæstv. forseti, tel ég mikilvægt að við ljúkum þessu samningaferli.

Það er mjög margt í þessari skýrslu sem var áhugavert að fara yfir. Við búum í heimi þar sem ófriður eða stríð geisa á mörgum svæðum. Það hafa líka dunið yfir miklar náttúruhamfarir. Við erum þátttakendur, beint og óbeint, í þessu öllu. Við reynum að styðja þau ríki sem verða fyrir hamförum með einhverjum hætti. Best tekst okkur til þegar við getum sent friðargæsluliða eða björgunarsveitir til að koma fyrst á vettvang, okkar góða og sérþjálfaða lið.

Það hefur verið langvarandi stríð í Afganistan sem fór illa af stað og er erfitt að sjá fyrir hvernig muni enda. Í Norður-Afríku geisar hver uppreisnin á fætur annarri og gengur þar yfir lýðræðisbylgja eða bylgja mótmæla gegn ríkjandi öflum. Ég tel mjög nauðsynlegt að hinar vestrænu þjóðir, og sérstaklega NATO, haldi sig fyrir utan þá þróun, þ.e. grípi ekki beint inn í, að þjóðir á þessu svæði sem alls staðar annars staðar geti sjálfar stýrt lýðræðisþróun á eigin forsendum.

Inn í þessa umræðu hefði verið mjög áhugavert að taka umræðu um kjarnorku sem slíka og mikilvægi þess að setja á algjört kjarnorkuvopnabann, að bannað verði að framleiða og nota kjarnorkuvopn og enn markvissara verði farið í að eyða þeim vopnum. Og eins að fyrir frið í heiminum verði komið á áætlun um að útrýma kjarnakljúfum til orkuframleiðslu vegna þeirrar augljósu hættu sem slík orkuframleiðsla skapar. Við þurfum að þróa orkuframleiðslu með öðrum hætti en kjarnorkunni og leggja miklu meiri kraft í það. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Mér voru miklu fleiri atriði hugleikin sem ég hefði viljað ræða, og sérstaklega þá Palestína, en ég (Forseti hringir.) missti mig í Evrópusambandsumræðunni.