139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[22:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu og Evrópusambandið dælir peningum til Íslands. Máttur peninga er mikill, auglýsinganna og áróðursins. Nú er það þannig að Vinstri grænir lofuðu í kosningabaráttunni að ganga ekki í Evrópusambandið. Þeir hafa sem sagt svikið það loforð því að nú er sótt um. Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hann réttlæti það fyrir kjósendum sínum að Ísland kunni að enda í Evrópusambandinu í kjölfar máttar peninganna?

Síðan var ákveðið að fara í stríð í Líbíu. Nú gagnrýndu Vinstri grænir bæði stríðið í Írak og innrásina þar. Spurningin er sú hvernig tekst hv. þingmanni að réttlæta fyrir kjósendum sínum að ríkisstjórn sem þeir styðja hafi ákveðið að beita ekki neitunarvaldi hjá NATO gegn því að fara í stríð í Líbíu, þ.e. að þeir séu núna orðnir stríðsherrar?