139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta hefur verið lífleg umræða í dag um skýrslu utanríkisráðherra og margt hefur verið rætt. Ég ætla að koma inn á tvö atriði og það er stríðið í Líbíu og stríðið í Írak á sínum tíma. Ég ætla að byrja á því að lesa þingsályktunartillögu sem var lögð fram 4. október árið 2000 af hv. þingmönnum Steingrími J. Sigfússyni, núverandi fjármálaráðherra, Guðjóni A. Kristjánssyni, þáverandi þingmanni, Össuri Skarphéðinssyni, núverandi utanríkisráðherra, og Ögmundi Jónassyni, núverandi innanríkisráðherra.

Þar sagði:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að viðskiptabann á Írak verði tafarlaust tekið til endurskoðunar.“

Greinargerð með frumvarpinu er mjög áhrifamikil eða eigum við að segja ömurleg. Þar segir, með leyfi forseta:

„Afleiðingar þessa viðskiptabanns eru skelfilegar svo ekki sé meira sagt, meira en ein og hálf milljón Íraka hefur látið lífið vegna skorts á nauðþurftum sem rekja má til bannsins.“

Þetta er mjög athyglisvert. Ein og hálf milljón manns á tíu árum þýðir 150 þúsund manns á ári — deilt með 365 þá dóu 411 manns á hverjum einasta degi að meðaltali í tíu ár undir stjórn Saddams Husseins. Þegar innrásin var gerð, þegar utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra settu Ísland á lista hinna staðföstu þjóða, sem mjög hefur verið gagnrýnt, og farið var í árás og innrás í Írak, má segja að þetta mannfall hafi verið stöðvað. Ég veit ekki til þess að 411 manns farist á dag eftir að innrásin var gerð. Það farast reyndar ansi margir af ýmsum ástæðum en ekki þessi fjöldi.

Nú síðast samþykkti hæstv. utanríkisráðherra að beita ekki neitunarvaldi gegn því að NATO færi inn í Líbíu. Nú veit ég ekki hvor er verri harðstjóri Gaddafí eða Saddam Hussein. Ég tel að Gaddafí sé skömminni skárri en Saddam, alla vega miðað við það sem komið hefur í ljós. Það að hæstv. utanríkisráðherra skuli hafa heimilað NATO að hefja loftárásir á Líbíu — ég fellst á það líka eins og innrásina í Írak á sínum tíma sem stöðvaði allar þær blóðsúthellingar eða mannfall sem ég gat um áður.

Það sem er athyglisvert við það er að Vinstri grænir gagnrýndu innrásina í Írak, en stóðu í ríkisstjórn að loftárásunum á Líbíu. Það finnst mér vera stílbrot þó að þeir lýsi því yfir eftir á að þeir séu á móti þessu. Ríkisstjórnin stóð að þessu. Hv. þingmenn Vinstri grænna eru líka á móti Evrópusambandsaðild en sóttu samt um. Nú er það þannig að ég er í sjálfu sér hlynntur Evrópusambandinu, það er ágætissamband sem náð hefur meginmarkmiði sínu, það hefur ekki orðið styrjöld í Evrópu síðan samstarfið hófst með Stál- og kolasambandinu fyrir 60 árum. Það er fínt mál. En ég vil ekki að Ísland gangi inn, alls ekki, frú forseti, ég vil ekki að Ísland afsali sér sjálfstæði sínu.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði í umræðunni fyrr í dag að Ísland hefði góða reynslu af nánu samstarfi við Evrópuþjóðir. Ég mótmæli því harðlega. Ísland hafði 600 ára reynslu af því að vera í samstarfi við þjóðir suður í Evrópu, fyrst Norðmenn og síðan Dani. Það var ekki góð reynsla, frú forseti, hún var ömurleg. Hún breytti Íslandi í fátækustu þjóð í Evrópu. Jón Sigurðsson kippti þjóðinni sem betur fer út úr þeirri stöðu með því að berjast fyrir sjálfstæði hennar, sem sumir vilja núna afsala sér.

Menn segja að í sjávarútvegsmálum sé Evrópusambandið að læra af okkur, það er fínt, ef þeir geta lært af okkur eitthvað er það gott. En svo virðumst við núna vera að læra af þeim það sem þeir höfðu áður, að banna framsal og slíkt — við lærum alla ókostina af þeim á sama tíma og þeir eru að læra kostina af okkur. Ef það skyldi nú gerast að við göngum í Evrópusambandið — máttur peninganna og áróðursins er mikill og það getur vel verið að Vinstri grænir upplifi það, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, að Ísland sé orðið aðili að Evrópusambandinu — munum við væntanlega taka upp sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins sem var okkar, sem þeir tóku frá okkur, svo að þetta er dálítill hringlandi.

Fyrst Evrópusambandið getur breytt sjávarútvegsstefnunni núna, í takt við íslenska aðferð, geta þeir að sjálfsögðu breytt henni aftur eftir tíu ár. Þá munu þeir leyfa Bretum og Spánverjum að veiða við Ísland að sjálfsögðu, nema hvað? Það má líkja Evrópusambandinu við hraðlest sem er á fleygiferð í átt til sameiginlegs ríkis, ef það brotnar ekki niður áður. Bráðum verður komið á efnahagslegt samstarf, menn fara að segja öðrum fyrir verkum, Grikkir megi ekki borga svo mikinn lífeyri o.s.frv. Evrópusambandið er hraðlest.

Ég ætla að tala aðeins um þróunarlönd. Mér finnst að Ísland eigi virkilega að stefna að því að 0,7% af landsframleiðslu fari í þróunaraðstoð og ég er mjög hlynntur því að við berjumst gegn mansali. Talið er að 100 þúsund manns séu seld mansali í þrældóm á hverju ári og það er skömm sem hvílir á mannkyninu.

Nú vill svo til að ég hef starfað mjög lengi í ÖSE og er sérstakur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í fjármálum ÖSE. Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra ef hann kemur hingað: Hvernig er endurskoðun háttað hvað varðar fjármuni í þessu alþjóðasamstarfi? Hvernig er endurskoðun háttað hjá Sameinuðu þjóðunum, Evrópusambandinu, ÖSE o.s.frv.? Það er nefnilega þannig í ÖSE að ÖSE sjálft, stofnunin, kýs endurskoðanda. Áður var það norska ríkisendurskoðunin, núna er það úkraínska, þangað er ég að fara á þriðjudaginn kemur til að heyra hvernig þeir ætla að endurskoða. ÖSE-stofnunin kýs endurskoðanda og hann má gefa skýrslu til ÖSE-stofnunarinnar og einskis annars. Norska ríkisendurskoðunin sagði við mig að hún mætti ekki einu sinni gefa norskum þingmönnum upplýsingar um stöðu ÖSE. Það er ÖSE-stofnunin sjálf sem fær endurskoðun á sjálfri sér. Þetta gengur náttúrlega ekki upp, frú forseti. Þetta er andstætt því að þingin hafi eftirlit með framkvæmdarvaldinu.

Nú er ég einmitt að leggja fram á mánudaginn, í gegnsæisnefnd á vegum ÖSE-þingsins, tillögu um að ÖSE-þingið ráði þennan ágæta endurskoðanda og hann skili skýrslu til ÖSE-þingsins eins og eðlilegt er, um fjárreiður ÖSE-stofnunarinnar. Ég vil spyrja: Hvernig er þessu háttað með aðrar stofnanir sem Ísland á aðild að, Sameinuðu þjóðirnar, NATO o.s.frv.? Hafa einhverjar þingmannanefndir eftirlit með fjárreiðum þessara stofnana eða eru þær gjörsamlega eftirlitslausar eins og ÖSE-stofnunin er? Svo er það spurning um ESB — ég hugsa að þar væri eftirlit ef reikningarnir lægju fyrir, en þeir liggja bara ekki fyrir.

Svo vil ég spyrja hæstv. ráðherra að fyrirbæri sem er skattfrelsi utanríkisþjónustunnar. Ég hef lengi agnúast út í skattfrelsi vissra stétta. Ég barðist fyrir því að forsetinn færi að borga skatt og það var samþykkt, hann fór að borga skatt eins og aðrir þegnar þessa lands. Sjómannaafslátturinn er líka að hverfa, ég barðist lengi fyrir því að hann yrði afnuminn. Ekki vegna þess að mér væri illa við sjómenn heldur vegna þess að mér var illa við það að vissar stéttir fengju skattafslátt. En utanríkisráðuneytið, þar kemst ég ekki lengra. Þar njóta allir meira og minna skattfrelsis á grundvelli Vínarsamningsins frá 1812. Ég kemst ekki fram hjá þessum Vínarsamningi frá 1812, að fólkið sem keyrir um á götunum, notar skólana og notar allt velferðarkerfið borgar ekki skatta til þess sama velferðarkerfis. Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvernig þessu er háttað. Sendiráðsmenn sem vinna hér á Íslandi eða í Kaupmannahöfn, eða danskir sendiráðsmenn sem vinna á Íslandi og aðrir sem vinna í Kaupmannahöfn, hvernig er skattlagningu þessa fólks háttað?