139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefndi nokkur atriði sem ég hafði ekki náð að koma inn á í ræðu minni eins og mikilvægi þróunaraðstoðar sem ég er alveg sammála honum um og tel að við ættum að taka þá stefnu og markmið í þeim efnum sem hann nefndi. Vissulega er rétt að láta þess getið eftir þá gagnrýnu umræðu sem hefur verið hér í dag að það er fjölmargt gott að finna í þessari bók hæstv. utanríkisráðherra um utanríkismál. Mikilvægi þróunaraðstoðar er svo sannarlega eitt af því sem við ættum að leggja áherslu á jafnframt baráttunni gegn mansali. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það.

Hæstv. utanríkisráðherra nefndi hins vegar í ræðu sinni þegar hann kynnti bókina að reynslan sýndi það, m.a. í Icesave-málinu, að litlar þjóðir berðust með kjafti og klóm fyrir hagsmunum annarra lítilla þjóða. Ég held ég hafi heyrt þetta rétt. Er hv. þingmaður sammála því að Icesave-málið hafi sýnt okkur að stuðnings sé að vænta frá litlum þjóðum í Evrópusambandinu þegar upp koma erfið mál? Eins og ég rakti í seinni ræðu minni áðan fara hagsmunir stóru þjóðanna í Evrópusambandinu og þeirra litlu oft og tíðum ekki saman. Einna stærsta dæmið núna er mikill hagvöxtur í Þýskalandi þar sem efnahagslífið gengur ljómandi vel á meðan allt gengur á afturfótunum í Grikklandi, Írlandi, Portúgal og víðar. Má vænta að mati hv. þingmanns stuðnings úr röðum lítilla þjóða vegna þess að Ísland er lítið land?