139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég kannast við umræðuna í Þýskalandi sem hv. þingmaður nefnir. Hún er mjög áberandi og raunar hjá fleiri þjóðum. Það er rétt sem hann segir að líklega má frekar vænta stuðnings þjóða en ríkja en því miður ráða ríkin oftast ferðinni.

Hæstv. utanríkisráðherra nefndi einhvern tíma í umræðunni í dag að Íslendingar hefðu gengið í gegnum tvíhöfða kreppu, (Gripið fram í.) tvíburakreppu, og átti með því við að hér hefði orðið fjármálakreppa en líka gjaldmiðilskreppa. Það er nokkuð sem við höfum oft fengið að heyra frá þingmönnum Samfylkingarinnar, sérstaklega held ég að megi segja að hv. þm. Magnús Orri Schram hafi talað um það. Ég held að hann haldi varla ræðu án þess að nefna það atriði. Þá á hann við, og væntanlega hæstv. utanríkisráðherra líka, að hér á landi hafi gjaldmiðillinn króna leitt til þess að ekki aðeins bankarnir féllu heldur hafi lán fólks hækkað líka vegna verðtryggingarinnar og launin lækkað.

Menn gleyma því til að mynda að Írar lentu í því sama. Þar gerðist það með þeim hætti að vextirnir á húsnæðislánunum breyttust samstundis nánast og hækkuðu mjög mikið, jafnvel um 50–60% í sumum tilvikum, þannig að einn mánuðinn greiddu menn hugsanlega af láni sínu 1.000 evrur en mánuðinn eftir 1.500–1.600 evrur vegna þess að vextirnir á láninu voru hækkaðir undir eins. Á sama hátt lækkuðu launin ekki við það að gjaldmiðillinn félli heldur voru þau einfaldlega lækkuð, upphæðin sem starfsmenn fengu greidda var lækkuð og jafnframt (Forseti hringir.) misstu fjölmargir vinnuna, þar af var líklega um 25 þúsund opinberum starfsmönnum (Forseti hringir.) einfaldlega sagt upp. (Gripið fram í.)