139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:41]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að hvetja hv. þm. Birgi Ármannsson til að ganga til liðs okkur vinstri græn í þessu stóra máli. Eins og ég sagði áðan erum við afskaplega einmana þegar kemur að andstöðu okkar við NATO, Atlantshafsbandalagið, og afstöðu okkar í ýmsum alþjóða- og utanríkismálum. Það er því rétt, við höfum því miður ekki bolmagn til að ráða öllu því sem við vildum ráða. Það segi ég fyrir mitt leyti. Okkar afstaða og sannarlega mín afstaða í þessum efnum liggur alveg kristaltær fyrir. Ef ég fengi þar um ráðið mundi ég fordæma í orði og verki loftárásirnar í Líbíu eins og reyndar æ fleiri eru að gera og hvetja nú til pólitískra lausna í því máli og að loftárásum yrði hætt.