139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er þá nærtækt að spyrja hvort hv. þingmaður líti svo á að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi látið reyna á afstöðuna varðandi ákvörðun um aðkomu Atlantshafsbandalagsins að átökunum í Líbíu eða hvort það kunni að vera svo að hæstv. utanríkisráðherra hafi tekið ákvörðun um afstöðu Íslands á vettvangi Norður-Atlantshafsráðsins án samráðs við samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Kann svo að vera? (Gripið fram í.)

Nú vil ég beina sjónum að Evrópusambandinu vegna þess að þar er sama staða uppi. Vinstri hreyfingin – grænt framboð gekk til kosninga með mjög skýra stefnu varðandi Evrópusambandið. Og hvert er fyrsta verkefnið sem ný ríkisstjórn mynduð eftir þær kosningar gerir? Það er að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þá spyr ég hv. þingmann: Fór hún (Forseti hringir.) og hennar félagar til kjósenda fyrir kosningarnar vorið 2009 og sögðu: (Forseti hringir.) „Ef þið kjósið okkur sækjum við um aðild að Evrópusambandinu“?