139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:57]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Pétur H. Blöndal hljóti að vera sammála mér um það að ef við tökum dæmi um Þjórsá, eins og hann gerði, skilar það nákvæmlega engu til mannkynsins í heild sinni, eða eins og hann talar um í þeirri gríðarlegu orkuþörf sem við stöndum frammi fyrir. Það sem gera þarf er náttúrlega að taka á neysluvenjunum, byrja þar. Ef allir væru eins og við Íslendingar erum í okkar orkuþörf þyrfti nokkrar plánetur. Svo einfalt er það. Ef allt mannkyn hagaði sér eins og við gerum. Þó að hægt sé að virkja eina Þjórsá, 10, 50, 100, 200 og 500 mun það samt ekki skila sér í því að við getum lifað hér með sjálfhverfum hætti. Við þurfum samt nokkrar plánetur í viðbót.

Það er þetta sem þarf að taka á í grunninn, þessari gegndarlausu sóun og neyslu og ævarandi kapphlaupi sem ég minntist einmitt á í ræðu minni og (Forseti hringir.) tók sérstaklega fyrir. Það er það sem (Forseti hringir.) grundvallarbreytt hugsun verður að koma fram.