139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Nú líður senn að lokum umræðunnar. Ég vildi nota tækifærið í örstuttri ræðu í lokin til að árétta það sem ég hef sagt sennilega oftar en einu sinni og oftar en tvisvar fyrr í dag, að við næstu skref eða næsta fasa, ef við getum orðað það svo, í aðlögunarferlinu, í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, er gríðarlega mikilvægt að tryggja aðkomu þingsins að mótun samningsafstöðu Íslands á einstökum sviðum. Ég held að full ástæða sé til að taka þetta skýrt fram því ef ég skil það rétt að samningsafstaðan verði fyrst og fremst bara kynnt þinginu, kynnt utanríkisnefnd eða einstökum fagnefndum, er það ekki nægilegt að mínu mati.

Ég er þeirrar skoðunar að þegar fyrir liggur tillaga eða drög að samningsafstöðu í einstökum málaflokkum af hálfu samninganefndar og ráðherranefndar um Evrópumál, sé gríðarlega mikilvægt að kynna það og ræða í þinginu, ekki bara með einhliða upplýsingagjöf heldur raunverulegu samráði þar sem þingið geti haft bein áhrif á hver verði samningsafstaða Íslands á einstökum sviðum. Ég held að það sé eina leiðin til að tryggja að þau háleitu markmið náist sem hæstv. utanríkisráðherra, ríkisstjórnin og meiri hluti stjórnarflokkanna á þingi lögðu upp með í sambandi við Evrópusambandsumsóknina; að gera ferlið gagnsætt og opið og þingið ætti að hafa þar virka aðkomu. Þegar við komum að þeim tímamótum að rýnivinnu verður hætt og mótun samningsafstöðu hefst, sérstaklega í viðkvæmum málaflokkum, á að vera um raunverulegt og virkt samráð við þingið að ræða en ekki eingöngu einhliða upplýsingagjöf.

Þetta vildi ég árétta, hæstv. forseti. Ég teldi það nokkurs virði fyrir okkur að hafa staðið í þessari umræðu í allmarga klukkutíma ef við fengjum í lokin yfirlýsingu frá hæstv. utanríkisráðherra um að hann væri sammála því að slíkt virkt samráð við þingið verði haft um mótun samningsafstöðu sem hefst væntanlega í sumar og haust í flestum samningsköflunum, nú þegar rýnivinnunni er að ljúka.

Ég vildi að öðru leyti segja að auðvitað er mjög sérkennileg staða uppi varðandi Evrópusambandsumsóknina vegna þess að stuðningurinn á bak við hana er óskaplega veikur. Hann er svo veikur að einn af samningamönnum Íslands hefur kallað eftir því í blaðagrein að pólitískur stuðningur við umsóknina verði efldur (Gripið fram í.) og kallað eftir nýjum þingmeirihluta. Það fylgdi hins vegar ekki sögunni hver sá þingmeirihluti ætti að vera. Raunar er þingmeirihluti fyrir Evrópusambandsaðild ekki augljós og jafnvel ekki þótt gengið yrði til kosninga. Ég held að það sé ekki í kortunum. Þetta lýsir hins vegar því vandræðastandi sem málið er í vegna þess að farið var af stað með aðildarumsóknina í þinginu vegna pólitískra hrossakaupa tveggja flokka sem mynduðu saman ríkisstjórn, án þess að í þinginu væri raunverulega meiri hluti fyrir þeirri ákvörðun sem var tekin á sumarmánuðum 2009.