139. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[00:18]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra spyr: Hvað gera stjórnmálamenn þegar þeir standa frammi fyrir erfiðum ákvörðunum eins og þeirri að þurfa að bregðast við þegar harðsvíraður harðstjóri er að murka lífið úr þegnum sínum? Jú, ég hef tekið afstöðu til þeirrar spurningar. En það sem ég held að stjórnmálamaðurinn Össur Skarphéðinsson, hæstv. utanríkisráðherra, hefði átt að gera var að taka upp símtólið og hringja í Steingrím J. Sigfússon, hæstv. fjármálaráðherra, og segja: Nú er komið að þessum tímapunkti. Ég veit að Vinstri hreyfingin – grænt framboð er algjörlega andvíg þessu. Þetta eru valkostirnir. Geri ég þetta með þínum stuðningi? Þá hefði hæstv. utanríkisráðherra, jafnvel þótt hann sitji ekki í ríkisstjórn sem er fjölskipað stjórnvald, haft þann stuðning ríkisstjórnarinnar — og ég ítreka að fastafulltrúinn talaði í umboði ríkisstjórnarinnar á þessum fundi. Nú finnst mér mikið til þess koma að hæstv. utanríkisráðherra telji mikilvægt að hafa umboð mitt og annarra stjórnarandstæðinga í ýmsum málum og vil láta þess getið að hann hefur ekki mitt umboð í Evrópusambandsvinnunni ef hann skyldi velkjast í vafa um það.

En þetta snýst um að það er ekki hálf ríkisstjórn sem tekur ákvörðun við borðið í Norður-Atlantshafsráðinu. Það er ríkisstjórn hvers ríkis sem gerir það. Ef ekki eru gerðir fyrirvarar á þeirri afstöðu er litið þannig á að umrædd ákvörðun sé í fullu umboði ríkisstjórnarinnar. Þess vegna skýtur það mjög skökku við þegar við heyrum fordæmingar einstakra hv. þingmanna og sterk andmæli frá hæstv. ráðherrum sem segja hreint út: Þetta var ekki gert í mínu umboði.

Ég held að það símtal sem (Forseti hringir.) ekki varð hefði verið það skynsamlega í stöðunni fyrir hæstv. utanríkisráðherra.