139. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[00:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það liggur fyrir að í norðausturhorni efnahagslögsögunnar er greinilega að finna töluverðar birgðir af olíu eða gasi. Rannsóknir sem hafa verið gerðar, sem mér voru kynntar þegar ég var iðnaðarráðherra, bentu til að svo væri. Rannsóknar- og nýtingarleyfi var í fyrsta sinn boðið út í minni tíð, eftir það brast kreppan á. Þó voru tvö fyrirtæki sem sýndu mikinn áhuga. En það var einn galli í veginum, skattamálin voru verulegur galli á umbúnaði okkar sem þá vorum í ríkisstjórn. Þau voru á þann veg — og ég var ósáttur við það, af því í reynd sýndist mér, eins og síðar reyndist vera raunin — að til þess að það borgaði sig að taka áhættuna af því að fara og leita að olíu þar yrðu menn að finna mjög stórar olíulindir. Það fældi menn frá. En ég veit ekki betur en að fyrir þinginu liggi frumvarp sem bætir verulega úr þessum skafanka.

Eins og hv. þingmaður man örugglega eftir var það fyrirtækið Sagex Petroleum, sem er í eigu Íslendinga, Norðmanna og er reyndar virkt í olíuuppdrætti einhvers staðar norðan Hjaltlandseyja, sem dró sig til baka beinlínis af þessum sökum. Mér þykir líklegt að verði þessi breyting að lögum muni áhuginn endurnýjast. Þó hefur eitt gerst sem gæti dregið úr því. Á þessum skamma tíma hefur þróun fleygt svo fram að ákveðin tegund gasvinnslu hefur leitt til þess að miklar gasbirgðir eru ínáanlegar annars staðar, með sérstakri vinnslutækni, „Shale gas“, sem ég kann ekki að þýða. Það gæti leitt til þess að um sinn dvínaði áhuginn á því að fara svona norðarlega. Ekki þori ég að fullyrða það. Þetta eru þó sérfræðingar, sem ég er (Forseti hringir.) frá fornu fari í sambandi við, að reifa við mig.