139. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[00:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að halda langa tölu en það var tvennt sem ég átti eftir að svara og til þess að hafa klárað ætla ég að gera það.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem ekki er lengur með okkur í kvöld, spurði mig tvisvar sinnum í dag hvernig fríverslunarviðræður milli Íslands og Kína stæðu. Fyrr í dag gaf ég honum það svar að ég vissi ekki betur en þær væru aftur hafnar og hugsanlega væru starfsmenn mínir þegar komnir til Kína af því tilefni. Það var rangt hjá mér og mig langar að leiðrétta það. Það er ekki fyrr en í ágúst en þá verður haldinn fundur í Kína. Það sem á milli hefur borið er það að Kína hefur farið fram á langan aðlögunartíma á niðurfellingu tolla af tilteknum vörutegundum, einkum sjávarafurðum. Það höfum við ekki getað fallist á. Sömuleiðis hafa Kínverjar gert kröfur um tímabundinn aðgang að íslenskum vinnumarkaði fyrir sitt vinnuafl. Við höfum heldur ekki getað fallist á það. Þessir stirðleikar hafa leitt til þess að þær fjórar lotur sem hafa verið í þessum viðræðum á síðustu tveimur árum, að ég hygg, hafa ekki borið mikinn árangur. Nú er hins vegar endurnýjaður áhugi af hálfu Kínverja og okkar til að taka þessar viðræður upp og þær munu sem sagt halda áfram með þessum hætti í sumar.

Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir spurði mig í dag um ERM II og kvað það sína skoðun að eitt af því sem við hefðum viljað ráðast í strax með umsókn um aðild að Evrópusambandinu væri að ganga í ERM II. Það er ekki svo. Það er ekki hægt að gera fyrr en að fyrir liggur að ríki vilji ganga í Evrópusambandið. Við getum því ekki gert það fyrr en að fyrir liggur jáyrði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá tekur að jafnaði 12 mánuði að ná þeim áfanga að ganga inn í það samstarf. Auðvitað er hægt að vinna fram fyrir sig og líklegt að Íslendingar reyni það með einhverjum hætti, það er a.m.k. lagt til í þeirri greinargerð sem kynnt hefur efnahags- og viðskiptanefnd. En frá þeim tíma líða hið minnsta tvö ár þangað til ríki getur gengið í myntbandalagið. Það er á þessum grundvelli sem ég hef sagt hér í dag að við gætum tekið upp evruna innan þriggja ára frá því að við tækjum ákvörðun um að ganga í Evrópusambandið. Þá þurfum við náttúrlega að uppfylla önnur skilyrði, Maastricht-skilyrðin, og þau eru fjögur. Eitt af þeim hefur verið talið sýnu erfiðast, þ.e. skuldaákvæðið um að skuldir ríkisins megi ekki vera meiri en 60% af landsframleiðslu. Þó eru tvö eða jafnvel þrjú frávik frá því.

Í öllu falli, eitt af því sem þarf að ná fram í viðræðum eða ná skilningi á er það sem sendimenn Evrópusambandsins hafa margoft sagt við mig og við mína starfsmenn að sú tala sé ekki það sem ræður úrslitum, heldur hvort skuldirnar séu sjálfbærar, hvort þær fari lækkandi. Svo er hjá okkur. Þar fyrir utan er það mat sérfræðinga okkar, og þá er ég ekki að tala um sérfræðinga utanríkisráðuneytisins heldur hins akademíska samfélags sem hefur skoðað þetta, að staða okkar sé töluvert öðruvísi að því leytinu til að peningalegar eignir íslenska ríkisins séu hlutfallslega töluvert miklu meiri en annarra ríkja. Sömuleiðis breyti það stöðunni að lífeyrissjóðakerfið hjá okkur sé sjálfbært. Þetta telja íslensku sérfræðingarnir að geri það að verkum að staða Íslands að þessu leyti sé síst lakari en Evrópusambandsþjóðanna almennt.

Frú forseti. Þetta eru lokaorð mín í dag. Ég ætla ekki að þreyta hv. þingmenn meira í kvöld en þakka þeim aftur fyrir fróðlega og málefnalega umræðu sem ég vona að hafi að einhverju skýrt ýmis atriði fyrir þeim og að sönnu mörg fyrir mér.