139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

aðgerðir NATO í Líbíu.

[14:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég fordæmi ekki aðgerðir sem miða að því að reyna að verja líf óbreyttra borgara svo lengi sem þær eru framkvæmdar skýlaust innan marka heimilda öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Það geri ég ekki. Ástæðan er að ég hef ekki gaman af því frekar en væntanlega nokkur annar maður að sjá saklausa borgara tapa lífinu í þessum ömurlega hildarleik. Auðvitað bundum við öll vonir við að það gæti orðið hliðstæð þróun í Líbíu og varð í Egyptalandi, að þar kæmist á manneskjulegra stjórnarfar án blóðsúthellinga. Við gerum það auðvitað enn en við fordæmum það ef augljóslega er farið út fyrir heimildir. (Gripið fram í.) Árásir í íbúðahverfi og sérstaklega árásir sem beinast greinilega að því að reyna að taka af lífi tiltekna einstaklinga eru ekki lögmætar og þær eru ekki verjanlegar, ég tala nú ekki um ef nú á að taka ákvörðun um að krefjast handtöku á viðkomandi einstaklingum þannig að hægt sé að draga þá fyrir alþjóðlegan stríðsglæpadómstól. (Forseti hringir.) Það er aðferð réttarríkisins en ekki hitt, að taka þá af lífi án dóms og laga, ekki Osama bin Laden frekar en aðra.