139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

heræfingar NATO hér á landi.

[14:15]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Menn koma hér oft upp til að karpa og jafnvel að skammast í hæstv. ráðherrum en ég ætla ekki að gera það í þetta skipti. Ég ætla bara að koma og hrósa hæstv. innanríkisráðherra sem að vísu gengur alla jafnan undir nafninu hæstv. varnarmálaráðherra hjá hæstv. utanríkisráðherra. Kom það vel fram í umræðunni í gær (Gripið fram í.) og ég held að það sé ágætisregla að kalla hæstv. ráðherra Ögmund Jónasson hæstv. varnarmálaráðherra, sérstaklega í ljósi þess að við lesum það í blöðunum núna að hann lætur ekki pólitíska fortíð þvælast fyrir sér og tekur ábyrga afstöðu þegar kemur að varnarmálum þjóðarinnar og stendur núna í samstarfi við önnur NATO-ríki fyrir heræfingu 3.–10. júní þar sem 450 hermenn taka þátt í að skipuleggja varnir Íslands. Einhvern tíma hefðum við hlustað á ræðu hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem væri á einhvern annan veg en hér hefur ábyrgðin tekin yfir hjá hæstv. innanríkis- eða varnarmálaráðherra. Ég vildi bara nota tækifærið og þakka honum fyrir það en ég held hins vegar að það væri æskilegt að hæstv. ráðherra mundi aðeins upplýsa þingið um þátttöku Íslendinga í þessari heræfingu og hvernig að henni verður staðið. Það hefur farið furðuhljótt um hana og það eru bara nokkrir dagar í hana. Ég held að það væri rétt bæði fyrir þing og þjóð að fá smáupplýsingar frá hæstv. varnar- eða innanríkisráðherra um hvað er hér á ferðinni.