139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[15:16]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi þetta með greiðslurnar þá er auðvitað hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta er einmitt eitt aðalvandamálið við þetta kerfi, þ.e. hvernig fjármagna eigi þessa greiðslu í upphafi ef hún er strax yfir þessu þaki eða upp að þessu þaki sem getur verið 22.500 kr. eins og nefnt er hér. Ýmsar leiðir eru nefndar þarna. Það getur verið greiðsludreifing, það geta verið styrkir, það er hugsanlegt að taka þetta með dreifingu beint í gegnum lyfjasöluaðilana og ég treysti á að þetta verði útfært í nefndinni í samráði við velferðarráðuneytið. Fyrst og fremst er verið að koma þessu máli til umræðu og umsagnar þannig að það geti fengið vandaða umfjöllun. Auðvitað er þetta töluvert mikil breyting og skiptir verulega miklu máli fyrir ákveðna hópa en um leið mun þetta hækka lyfjakostnað hjá öðrum hópum sem greiða þá meira í byrjun. Við þurfum að sjá til þess að þetta valdi ekki vandræðum fyrir þá hópa sem hér voru nefndir, þá sem lakast standa eða hafa minni tekjur. Menn eru mjög vel meðvitaðir um þetta og nefna eins og ég segi ýmsar leiðir til lausnar en það hefur ekki verið útfært og ég treysti á að það verði gert af nefndinni í samráði við ráðuneytið.