139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[15:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. velferðarráðherra svörin. Að mjög mörgu er að hyggja varðandi þetta frumvarp og það mun örugglega fá ítarlega umræðu í heilbrigðisnefnd. Með tilliti til þess sem ég sagði um rýmkun styrktarheimilda veldur það mér ákveðnum áhyggjum að í kostnaðarumsögn segir að á ársgrundvelli megi telja að þau umframútgjöld sem frumvarpið kallar á gætu orðið á bilinu 200–320 millj. kr. og að ekki sé gert ráð fyrir þeim viðbótarútgjöldum í gildandi fjárlögum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé tryggt að hægt verði að fjármagna þetta og hvort það verði þá gert í fjáraukalögum. Ég vil spyrja hvernig því verði háttað því að þarna segir, með leyfi forseta:

„Ekki er gert ráð fyrir framangreindum viðbótarútgjöldum í gildandi fjárlögum þar sem settur er bindandi útgjaldarammi á nafnvirði fyrir ríkið í heild næstu tvö árin.

Ég velti því fyrir mér: Hvernig á að fjármagna þetta fyrir árið 2011 og síðan árið 2012?