139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[15:19]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Rétt er að vekja athygli á því að frumvarpið sem hér er til umræðu er aðeins ein lagagrein. Það er í rauninni heimild til að vinna eftir þessu ákveðna kerfi en því fylgir síðan reglugerð. Í frumvarpinu er sett upp dæmi af reglugerð og útreikningarnir sem settir eru fram miðast við ákveðna lyfjanotkun og ákveðnar forsendur sem þar eru settar inn. Jafnframt er tekið fram í greinargerðinni að ekki sé gert ráð fyrir breytingum á kostnaði, þannig að þetta verður að stillast saman í útfærslunni, þ.e. hvaða lyf eru tekin inn, hverjar nákvæmlega upphæðirnar verða til að þetta núllstillist. Það er hugmyndin í vinnunni og sú útfærsla verður svo að vinnast í framhaldi af umfjöllun hv. heilbrigðisnefndar til að þetta gangi heim og saman.

Það er tekið skýrt fram að hér er ekki um að ræða sparnaðaraðgerð heldur kerfisbreytingu, hún á ekki að leiða til útgjaldaaukningar en heldur ekki til sparnaðar en því verður að stilla saman í umfjölluninni. Ef menn að öðrum kosti ákveða að gera betur (Forseti hringir.) en gert hefur verið áður verður það auðvitað að fá sérstaka umfjöllun á Alþingi sem er fjárveitingavaldið að sjálfsögðu.