139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[15:23]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni og fjárlaganefndarmanni hvað varðar fjárlögin í ár, og það hefur komið fram, að Sjúkratryggingar Íslands muni fara fram úr áætlun. Það er tvennt sem ekki hefur náðst utan um varðandi fjárlögin. Það eru annars vegar samningar við sérgreinalækna, þeir eru opnir og ekki hefur tekist að ná þeim sparnaði sem þar átti að ná fram. Hins vegar á svokölluðum S-merktu lyfjum, sem eru lyf sem eru inni á sjúkrahúsunum og eru þessi nýju lyf. Það hefur náðst árangur en greinilegt er að við munum ekki ná nægum árangri á þessu ári.

Með hinn hlutann á lyfjunum hefur náðst verulegur árangur í að lækka þann kostnað, þ.e. lyf til almennings og utan sjúkrahúsa. Þar er þetta þannig, eins og ég var að reyna að skýra út áðan, að það er í rauninni afstillingaratriði hversu mikið er greitt í hverju lyfi nákvæmlega hver upphæðin verður. Verður hún 22.500 kr. eins og gert er ráð fyrir í reglugerðinni? Hér er sett upp dæmareglugerð vegna þess að það er ekki þingið sem ákveður hana endanlega en þingið ákveður töluna. Það er okkar skylda að aðlaga það á þeim tíma og út frá þeim grundvelli sem þarna er lagður fram.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins er vakin athygli á að miðað við þessa reglugerð sem sýnd er sem dæmi og að því gefnu að allt verði samþykkt eins og þarna er þá muni það leiða til kostnaðarauka sem nemur 200–300 millj. kr. á ári.

Varðandi greiðsluna til Sjúkratrygginga þá er það bara eins og hverjir aðrir fjárlagaliðir, að ákveða verður hvort hún verður að mæta því með öðrum hætti eða taka á sig aukningu. Það má búast við að einhver aukning verði. Það ánægjulega er að í heilbrigðiskerfinu almennt hafa menn náð fram þeim sparnaði, a.m.k. hingað til, sem áætlaður hefur verið. Ég ætla að vona að það verði þannig líka í ár hvort sem það varðar ráðuneytið, Sjúkratryggingarnar eða annað varðandi stjórnsýslukostnað og rekstrarkostnað. En ljóst er að það verður hluti af því sem þarf að fjalla um af þinginu, þ.e. hvaða ramma menn setja um þessa löggjöf og þar með er svo hægt að stilla reglugerðina við það eða taka ákvörðun um að auka útgjöld en það er Alþingis að ákveða það.