139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[15:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir ræðuna og yfirferð yfir málið og eins að leggja þetta frumvarp fram. Hins vegar varð ég fyrir ákveðnum vonbrigðum með frumvarpið. Ég var formaður þeirrar nefndar sem vann að því að koma með nýtt greiðsluþátttökukerfi og þá var meiningin að líta á allt heilbrigðiskerfið sem eina heild og taka ætti þátt í kostnaði fólks alls staðar. Auk þess átti að vera önnur dreifing á kostnaði þannig að menn borguðu aldrei meira að jafnaði en 7 þús. kr. á mánuði að hámarki í allan kostnað. Núna eru lyfin bara tekin en ekki lækniskostnaður og alls konar rannsóknarkostnaður sem kemur til og fellur á fólk annars staðar og ekki tannlæknakostnaður eins og rætt var um o.s.frv. Ég varð fyrir dálitlum vonbrigðum með það fyrir utan að verið er að flækja kerfið alveg óskaplega.

Núna eru aldraðir sérstaklega meðhöndlaðir, þ.e. þeir sem hafa sótt um ellilífeyri. Aldraðir sem ætla að sleppa því um tíma, sem þeir mega, falla ekki undir þá reglu. Ég tel að þetta sé mjög mikil flæking á núverandi kerfi frá því sem hefði verið hægt ef menn hefðu farið einfaldari leið og tekið allt heila kerfið undir.

Talað er um tryggingarskírteini og mörk. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað gerist ef maður þarf örlítið af lyfjum, magnyl eða einhverju slíku, og dæmið byrjar að tikka og svo verður maður alvarlega veikur á tólfta mánuði og lendir í 100 þús. kr. kostnaði og síðan aftur í framhaldi af því af sama sjúkdómi viku seinna, í næsta mánuði, aftur í 100 þús. kr. kostnaði? Mér sýnist að viðkomandi geti lent í því að borga 65 þús. kr. á einu bretti. Þetta var rætt á sínum tíma.

Svo vil ég spyrja: Hvað þýðir að Sjúkratryggingar taki ekki þátt í kostnaði vegna lyfseðilsskyldra lyfja sem afhent eru í neyðartilfellum?