139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[15:50]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir framlagningu þessa frumvarps sem er um breytingu á lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, með síðari breytingum (greiðsluþátttaka í lyfjakostnaði). Margir vita að þetta frumvarp hefur verið í vinnslu og í undirbúningi. Eins og fram hefur komið var skipuð stór nefnd árið 2007 sem byrjaði á að skoða mögulegar breytingar á greiðsluþátttöku sjúklinga hvað varðaði lyf. En í meðförum nefndarinnar breyttist vinnan yfir í það að láta greiðslukerfið sem slíkt ná yfir alla heilbrigðisþjónustu. Í sjálfu sér var það mjög góð hugsun sem vert er að taka undir en vinnunni miðaði ekki það áfram að hægt væri að ljúka öllu utanumhaldi og möguleika á að koma þeirri hugmyndafræði í frumvarpsform og svo hingað til þingsins.

Eftir stendur að fyrirkomulagið sem við búum við hvað varðar greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði er nokkuð flókið, eftir lyfjategundum, eftir sjúkdómategundum og eftir ýmsum afsláttarleiðum, sem hafa verið settar inn til að takmarka ekki aðgang fólks að lyfjum, þ.e. þeirra sem eru tekjulægri og þeirra sem eru með illvíga sjúkdóma eða greiningu sem varir ævilangt, eins og sykursýki eða skjaldkirtilsbilanir. Þetta er því ærið flókið og engum blöðum um það að fletta að mikill áhugi er á því að einfalda kerfið og gera það gagnsærra og dreifa greiðslubyrðinni á annan hátt en gert er í dag. Greiðslubyrði getur verið þung því að ákveðnum sjúkdómum fylgir mikil lyfjaneysla og fyrir marga einstaklinga er lyfjakostnaður óheyrilegur eða getur verið það, ég tala ekki um á meðan við erum eins innstillt inn á lyfjanotkun og Íslendingar eru í dag og heilbrigðisþjónustan býður upp á.

Það er ekki nema ein grein í frumvarpinu sem lýsir þessari kerfisbreytingu en í athugasemdum við frumvarpið er farið yfir þessa hugmyndafræði. Það er líka alveg ljóst — og vil ég þá vísa til orða hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem talaði á undan mér og nefndi að hann hefði viljað sjá frumvarpið ganga lengra, ná yfir alla heilbrigðisþjónustuna — að hið mikla efnahagshrun sem varð haustið 2008 hafði áhrif á uppbyggingu og hugmyndafræði þessa kerfis eins og svo margt annað. Við höfðum hreinlega ekki bolmagn til að halda þessari vinnu áfram og lögðum hana til hliðar. Sem betur fer höfum við nú tíma til að horfa fram á við í stað þess að vera í björgunaraðgerðum og þetta er ein af þeim aðgerðum sem við eigum að koma á sem fyrst.

Þessari breytingu fylgir að rafræn skráning verður grunnur að hámarksgreiðslum hvers einstaklings. Að mínu mati eigum við samhliða þessu, og núna hið allra fyrsta, að koma á með miklu skilvirkari hætti rafrænni sjúkraskrá. Það þarf ekki bara að fylgjast með lyfjamagni og tegundum heldur þar einnig að vera möguleiki fyrir tilheyrandi heilbrigðisþjónustu, hvar sem hún er veitt, að fylgjast með færslum í sjúkraskrá einstaklinga þannig að komið sé í veg fyrir að verið sé að gefa út lyfjaávísanir til sama einstaklings upp á lyf með svipuð áhrif — það er ljóður á heilbrigðisþjónustu okkar að fólk fær lyfjaávísanir án þess að heildarsýn sé yfir sjúkdóma þess eða þá meðferð sem það hefur verið í og lyfjaávísanir eða meðferð sem fleiri en einn læknir ávísar á. Hver og einn sem ber ábyrgð á því að hafa sjúkling í meðferð þarf að hafa yfirsýn yfir rannsóknir sem viðkomandi hefur farið í, þannig að ekki sé verið að endurtaka þær, og eins hvaða lyfjaávísanir hafa verið skráðar út, þannig að ekki sé ávísað of mörgum eða víxlverkandi lyfjum. Ég tel að til viðbótar rafrænni skráningu á lyfjum og lyfjagagnagrunni eigum við að setja fjármagn og kraft í það að koma upp rafrænni sjúkraskrá.

Þakið sem sett er í frumvarpið, hvað varðar greiðsluþátttöku hvers og eins, er 22.400 kr. Tæpt hefur verið á því hvernig hægt væri að koma til móts við einstaklinga sem lenda í því að þurfa að fjárfesta eða leggja út fyrir dýrum lyfjum sem fara þá upp fyrir það þak, ef það gerist á skömmum tíma.

Hér eru líka þau nýmæli, eða frekar sjaldgæft, að með frumvarpinu fylgja drög að reglugerð sem ég tel mjög hjálplegt. Það auðveldar öllum sem að þurfa að koma, og þeir eru fjölmargir, að fara yfir frumvarpið og gefa umsögn. Þetta er eitt af þeim málum, þó það sé ekki nema ein grein, sem mjög margir, bæði stofnanir og félagasamtök, hagsmunasamtök, samtök sjúklinga og aðrir, vilja og eiga að hafa skoðun á. Ég tel því mikilvægt að fá þetta mál til heilbrigðisnefndar þannig að hægt sé að senda frumvarpið út til umsagnar sem allra flestra og hafa það opið í sumar, eða um einhvern tíma, að hvetja til þess að svo sé gert.

Þetta er frumvarp sem skiptir okkur öll máli og ég er sannfærð um að gangi þetta kerfi vel eftir verður hugað að því í nánustu framtíð að yfirfæra það yfir á aðra heilbrigðisþjónustu eins og víða er. Ég nefni þar meðal annars Þýskaland sem hefur svipaða uppbyggingu fyrir heilbrigðisþjónustuna líka og gefst vel. En ég held að það sé rétt skref, að byrja á lyfjunum og sjá hvernig það gengur.