139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[16:03]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum greinilega mismunandi sýn á hvað það var sem varð til þess að vinnunni var ekki haldið áfram. Ég er ósammála hv. þingmanni um að það hafi verið mat hæstv. þáverandi heilbrigðisráðherra, Ögmundar Jónassonar, að halda þessari vinnu ekki áfram af því að hann óttaðist að þá þyrfti að fara að verðmeta eða verðleggja alla heilbrigðisþjónustu í kerfinu. Málið var að hrunið út af fyrir sig hafði þau áhrif að allt starfsfólk og starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins og í stjórnsýslunni varð á einu andartaki upptekið við annað en þau hefðbundnu störf sem það hafði unnið við og varð að einbeita sér að því. Ef þetta kerfi hefði verið komið lengra eða komið á efast ég ekki um að það hefði verið farsælt fyrir mjög marga einmitt á því rúmlega tveggja ára tímabili sem liðið er frá hruninu, hefði létt þeim róðurinn, en það var ekki komið á og við höfðum ekki mannafla eða við getum bara kallað það afl til að fara akkúrat í þessa vinnu, það var nóg annað. Hv. þingmanni er alveg ljóst hvert álagið hefur verið í ráðuneytunum fram að þessu en ég held að við séum að sjá fram úr mestu erfiðleikunum. Ég efast ekki um að ef við náum að sameinast um að gera þetta vel úr garði og taka við umsögnum og ábendingum um þetta frumvarp sem á að baki alla þessa vinnu, sem hv. þingmaður þekkir mjög vel, og ætti þess vegna að vera góð leiðsögn fyrir okkur sem vinnum þetta starf. Ef okkur tekst vel með það efast ég ekki um að við lítum til þess að koma því í eðlilegt vinnuferli og yfir á aðra þjónustu.