139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[16:17]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og um leið nota tækifærið og þakka þá vinnu sem liggur á bak við frumvarpið, alveg aftur til ársins 2007 þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal tók þátt í þeirri vinnu. Hvort sem er í ráðuneytum eða í þinginu finnst mér mikilvægt að menn nýti þá vinnu sem unnin er á hverjum tíma. Jafnvel þó ekki sé farið eftir hlutunum í einu og öllu þá er lögð fram mjög mikil vinna sem skiptir miklu máli að nýtist í allri umfjöllun og til áframhaldandi vinnu.

Hv. þingmaður lýsti ágætlega í lokaræðunni heilbrigðiskerfinu eins og það hefur byggst upp varðandi gjaldtöku og því vandamáli að ekki er mjög mikið samræmi í henni og fólk getur verið að borga afar íþyngjandi greiðslur fyrir ýmsa þjónustu. Ekki er samræmi t.d. hvað varðar tannheilsuna og hefur réttilega verið bent á það hér. Það er ánægjulegt að heyra að fleiri eru á þeirri skoðun að við þurfum að bæta þar úr. En þar er við ramman reip að draga á meðan nánast öll tannhirða í landinu er einkavædd, þ.e. hún er úti á markaðnum og ekki gilda samningar um verð. Hafi maður áhuga á því að borga ákveðinn hlut af tannlæknakostnaði, eins og verið er að reyna að vinna að, er spurningin alltaf hluti af hverju þegar sjálfskömmtunarkerfi er á greiðslunni. Úr þessu þurfum við að bæta.

Ekki hefur tekist að búa til notendamarkað þannig að ráðuneytið eða Sjúkratryggingar geti keypt þjónustuna og auglýst eftir aðilum sem sinni henni. Þá komi þeir sem tilbúnir eru að vinna samkvæmt tilteknum gjaldskrám eða bjóða í þjónustuna á ákveðnu verði þannig að hægt sé að samræma greiðsluhlutdeildina. Auðvitað er erfitt ef tveir einstaklingur fara í sömu aðgerð hjá tannlækni og á einum vinnustað eru greiddar 10 þús. kr. og á öðrum 15 þús. kr. og á sama tíma ætlum við að borga eitthvert ákveðið hlutfall af þeirri greiðslu. Við höfum t.d. miðað við að reyna að ná því skrefi að borga allt að 75% tannlækninga miðað við tiltekna gjaldskrá í tannlækningum barna. Við höfum í rauninni til þess fjármagn ef við næðum samningum við tannlækna. Ég held að afar mikilvægt sé að reyna að ná þessu skrefi og ná samkomulagi. Eins og ég hef gert undanfarið og ítreka það hér, heiti ég á tannlækna að koma til samninga og finna á þessu lausn þannig að viðunandi sé fyrir alla aðila og við getum boðið upp á tannlæknaþjónustu, sérstaklega fyrir börn. Það er dapurlegt að horfa upp á það í annars frábæru heilbrigðiskerfi að við skulum vera að missa niður tannheilsu í landinu.

Auðvitað má ekki gleyma því að ábyrgðin á tannhirðu hvílir hvað mest á heimilunum og einstaklingunum. Það breytir því ekki að við þurfum að geta brugðist við og veitt þá þjónustu sem þarf þar sem upp á vantar.

Í umræðunni hefur verið nefnd þörfin á að rafræn skráning sé í lagi. Víða í heiminum er bent á að þetta sé eitt af þeim úrræðum sem menn hafa til að lækka kostnað, að upplýsingagjöf sé sem allra best, menn séu ekki að tvítaka rannsóknir eða taka sýni á tveimur stöðum vegna þess að menn hafa ekki upplýsingar um hvað hefur verið gert á öðrum staðnum. Það gildir um lyfin líka.

Varðandi annað sem komið hefur fram vil ég undirstrika að það er jákvætt að heyra að menn telja þetta til mikilla bóta. Ég held að ekki sé of lítið úr því gert að segja að ef við náum fram þessu frumvarpi eða sambærilegu þá verður um að ræða verulega kjarabót fyrir þá sem hafa þurft að nota lyf í miklum mæli. Það skiptir máli. Eitt af því sem ég hef haft áhyggjur af í fátæktarumræðunni og umræðunni um ákveðna öryrkjahópa og þá sem eru á lífeyri er að lyfjakostnaður getur sett allt úr skorðum. Þar hafa úrræðin ekki verið nægjanleg.

Ég sagði það ekki í inngangsræðunni en vil taka fram að frumvarpið hefur verið kynnt sjúklingasamtökum og Öryrkjabandalaginu og öðrum slíkum samtökum og þeir aðilar hafa haft tækifæri til að gera athugasemdir við frumvarpið. Í því felst þó ekki að búið sé að leggja blessun yfir það í þeirri mynd sem það er lagt fram hér heldur höfum við notið ákveðinnar leiðsagnar við vinnuna. Auðvitað þarf hv. heilbrigðisnefnd að veita vandaða umfjöllun um málið. Af því að spurt var hvaða leyfi menn hefðu til breytinga þá er það einfaldlega svo að Alþingi Íslendinga setur lögin og hefur leyfi til að koma með tillögur og setja forskrift að því hvað má og hvað má ekki í reglugerðum. Ég held að mjög mikilvægt sé að menn skoði þetta og ef menn geti t.d. sýnt fram á betri lausnir varðandi 12 mánaða tímabilið er sjálfsagt að reyna að koma til móts við það.

Ég held að mikilvægt sé að málið fái eins skjótan framgang og hægt er án þess að það bitni á gæðum vinnunnar. Draumurinn var að láta gildistökutímann 1. október standa. Biðjast verður velvirðingar á að málið kom ekki fyrr fram en það verður síðan að ráðast af hraðanum í nefndinni og hvernig gengur að vinna málið hvort þetta næst fyrir þann tíma. Ég held að mikilvægt sé að reyna það.

Ég held að ekki sé miklu við þetta að bæta. Talað er um að kannski sé of mikið af félagslegum viðbótum í þessum kafla en það er af því að menn vildu ekki taka stærra skref en þetta, að um væri að ræða jöfnunarkostnað. Ákveðin atriði í eldri umgjörð héldust þó inni, það getur verið einhver spurning um tíma og aðlögun að nýju kerfi, en ég held að það sé skynsamlegt á þessu stigi. Það kom líka fram og tengist rafrænum upplýsingum að ná þarf utan um fjöllyfjanotkun og einhver snertiflötur verður að vera við þá aðila sem vita hvaða lyf einstaklingar taka svo menn fái betri ráðgjöf og leiðsögn og læknar hafi upplýsingar um hvaða lyf eru gefin á ólíkum stöðum.

Þegar við ræðum gjaldtöku almennt í heilbrigðiskerfinu og raunar lyfjanotkunina líka þá snýst þetta í heildina um hver bein þátttaka einstaklinganna eigi að vera í gjöldum í heilbrigðisþjónustu. Í lögum um heilbrigðisþjónustu er klárt markmið að ekki eigi að mismuna mönnum, menn eiga að geta notið heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og raunar búsetu líka. Það skiptir mjög miklu máli og ég hef aldrei heyrt annað en að allir séu sammála um að við reynum að varðveita þann eiginleika. Því er mikilvægt sem komið hefur fram í umræðunni frá fleirum en einum að við reynum að stíga skrefið áfram og jafna einnig greiðsluþátttöku í öðrum heilbrigðiskostnaði. Svo getum við tekist á um hvort hlutfallið eigi að vera 17% af heildinni eða 20% eða eitthvað meira eða minna, það þarf síðan að stilla af í framhaldinu og finna út úr hvað er borgað í gegnum skatta og hvað er borgað í gegnum beinar gjaldtökur.

Ég þakka umræðuna sem hefur verið afar jákvæð. Ég treysti á að hv. heilbrigðisnefnd muni vinna vel úr málinu og á ekki von á öðru, ég veit að þar eru öflugir þingmenn og fólk með mikla reynslu sem mun leggja málinu lið.