139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

Byggðastofnun.

721. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. minni hluta iðnn. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta iðnaðarnefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 106/1999, um Byggðastofnun.

Í upphafi máls míns verð ég að segja, sem er reyndar ítrekað í áliti minni hlutans, að það er nokkuð sérkennilegt að þetta mál skuli koma fram núna og með þessum hætti þegar verið er að skoða starfsemi stofnunarinnar og þá sérstaklega það sem snýr að fjármálahlið hennar og einnig að vinna að endurskoðun á stuðningskerfi atvinnulífsins.

Ég hef áður sagt í þessum ræðustól, frú forseti, að helsti vandi byggðaumræðu á Íslandi undanfarin ár hafi verið skortur á stefnumörkun og stefnu þeirra ríkisstjórna sem hafa leitt þau mál og sýnist mér ekki vera nein breyting þar á. Að öðru leyti ætla ég að renna í gegnum þetta álit, ég held að það skýri sig nokkuð sjálft og skoðun okkar sem stöndum að álitinu, þ.e. þess sem hér stendur og hv. þm. Sjálfstæðisflokks, Jóns Gunnarssonar.

Með frumvarpinu er lagt til að stjórnarmönnum í Byggðastofnun verði fækkað úr sjö í fimm. Megintilgangur þessarar ráðstöfunar samkvæmt frumvarpinu er að ná fram aukinni skilvirkni í störfum stofnunarinnar sem og að lækka kostnað við rekstur stjórnar hennar. Iðnaðarráðherra mun skipa í stjórn en með hliðsjón af breyttu fjármálaumhverfi og tilkomu Bankasýslu ríkisins kemur til greina að fela valnefnd Bankasýslunnar að tilnefna tvo stjórnarmenn. Minni hlutinn tekur undir með meiri hluta nefndarinnar að í ljósi þeirra upplýsinga sem fram komu á fundum nefndarinnar er þessi tilnefning valnefndar Bankasýslu ríkisins ekki raunhæf eins og sakir standa.

Minni hlutinn gagnrýnir þau vinnubrögð að leggja fram frumvarp um breytingar á stjórn á sama tíma og sérstök nefnd hefur það hlutverk að endurskoða lánahluta stofnunarinnar. Ætla má að í þeirri vinnu komi fram upplýsingar er kunna að hafa áhrif á skipan stjórnar. Þá er á sama tíma unnið að endurskoðun á stuðningskerfi atvinnulífsins. Því telur minni hlutinn frumvarpið ótímabært.

Í máli umsagnaraðila kom fram nokkur gagnrýni á frumvarpið sem minni hlutinn tekur undir að nokkru leyti. Ekki verður séð að fækkun stjórnarmanna leiði til aukinnar skilvirkni. Þvert á móti má færa rök fyrir því að skilvirkara sé að vera með stærri stjórn er hafi betri yfirsýn og þekkingu á atvinnulífi á landsbyggðinni. Fjárhagslegt hagræði er hverfandi eða um 2 millj. kr. króna samkvæmt greinargerð frumvarpsins.

Fram kemur að Byggðastofnun hefur starfsleyfi sem lánafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og er stofnunin eftirlitsskyldur aðili samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í þessu felst að þau hæfisskilyrði sem rakin eru í 52. gr. laganna gilda um stjórn og framkvæmdastjóra Byggðastofnunar. Minni hlutinn áréttar mikilvægi þess að þeir sem veljast í stjórn Byggðastofnunar hafi mikla þekkingu á málefnum landsbyggðarinnar, ekki síst atvinnulífi. Yfirgripsmikil reynsla og þekking getur því vegið þyngra en þau hæfisskilyrði sem getið er í áðurnefndum lögum. Hrun fjármálakerfisins verður varla rakið til annarra en aðila er uppfylltu hæfisskilyrðin.

Minni hlutinn tekur undir þá gagnrýni umsagnaraðila að með frumvarpinu sé of mikið gert úr hlutverki stofnunarinnar sem lánastofnunar, þ.e. fjármálafyrirtækis, en ekki horft til þess mikilvæga hlutverks sem stofnunin hefur varðandi rannsóknir, þróunarstarf og ráðgjöf.

Minni hlutinn gagnrýnir einnig að svo virðist sem stjórnvöld hafi við vinnslu frumvarpsins hvorki leitað álits né samráðs við hagsmunaaðila, svo sem atvinnuþróunarfélög á landsbyggðinni.

Minni hlutinn telur því frumvarpið ótímabært og harmar skort á samráði.

Frú forseti. Þannig hljóðar álit minni hluta iðnaðarnefndar um þetta frumvarp. Því til áréttingar vil ég ítreka að það er mjög mikilvægt að við drögum ekki úr vægi þess að reka öfluga byggðastefnu og vera með stofnun sem hefur það á sinni könnu að fylgjast með, rannsaka, gera tillögur til stjórnvalda og hafa eftirlit með þróun byggða. Við þekkjum dæmi þess frá nágrannalöndum að þar er jafnvel skattkerfinu og slíkum hlutum beitt til að jafna aðstöðu. Við höfum margrætt um húshitunarkostnað sem er hluti af byggðamálum, samgöngubætur og fleira í þeim dúr. Allt tengist þetta byggðaþróun og því að íbúar landsins geti búið við sómasamleg kjör þar sem þeir vilja setja sig niður.

Ég hef áhyggjur af því að sú stefna sem má kannski lesa í gegnum þær breytingar sem verið er að leggja til varðandi stjórn Byggðastofnunar, og hefur komið fram í umfjöllun um svokallaða 20/20 áætlun og ekki síst því er tengist aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu, sé til þess að veikja þá litlu í raun, tel ég, aðstoð og sýn sem stjórnvöld hafa haft á að jafna stöðu landsmanna þegar horft er til byggðanna.

Margar skýrslur hafa verið skrifaðar og mörgum tillögum hefur verið skilað inn en það sem hefur skort á fyrst og fremst eru verkfæri, ákvarðanataka hjá stjórnvöldum og verkfæri t.d. fyrir stofnun eins og Byggðastofnun til að vinna með og starfa með.

Frú forseti. Ég læt þessari yfirferð lokið.