139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

Byggðastofnun.

721. mál
[16:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum er dálítið sérstakt fyrir margra hluta sakir. Byggðastofnun hefur starfað um árabil og oft fengið miklar ákúrur fyrir ýmislegt sem hún hefur verið að gera. Hún er vissulega ekki frekar en aðrir hafin yfir gagnrýni og ýmislegt hefðu menn getað gert betur í áranna rás. Hinu mega menn ekki gleyma að Byggðastofnun hefur verið að vinna á mjög erfiðum svæðum. Henni er ætlað skilgreint hlutverk sem kemur fram í lögum um hana og er meðal annars gert ráð fyrir því að hún láni eingöngu inn á svæði sem teljast landsbyggð samkvæmt tiltekinni skilgreiningu og samkvæmt skilgreiningu sem byggist meðal annars á svokölluðu byggðakorti Eftirlitsstofnunarinnar ESA.

Í mörgum tilvikum er um að ræða svæði sem fjármálastofnanir okkar hafa hikað við að lána inn á. Það er þá einfaldlega þannig að Byggðastofnun hefur verið að lána til verkefna á svæðum sem bankarnir hafa ekki viljað sinna nema að takmörkuðu leyti og til skilgreindra verkefna og enn fremur til atvinnustarfsemi sem bankastofnanirnar hafa ekki verið tilbúnar til að lána til. Ég ætla að taka lítið dæmi.

Fyrir nokkrum árum var farið að huga að uppbyggingu kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal. Þá voru bankarnir okkar í mikilli útrás og gátu lánað tugi milljarða til allra skapaðra hluta, bæði innan lands og utan. Bankarnir voru hins vegar ekki tilbúnir til að lána fyrirtækinu sem ætlaði að reisa þessa kalkþörungaverksmiðju og hafði lagt fram mikið eigið fé, þeir voru ekki tilbúnir til að lána fimmeyring í þá atvinnustarfsemi. Ástæðan var sú að kalkþörungaverksmiðjan átti að rísa á Bíldudal. Það var utan svæðis sem bankarnir voru tilbúnir til að lána til.

Þá kom Byggðastofnun til skjalanna og lánaði fjármuni til uppbyggingar þessa fyrirtækis sem nú er burðarásinn í atvinnulífi Bíldudals. Þar starfa nú um 20 manns, glæsilegt fyrirtæki sem hefur að vísu átt við ákveðna byrjunarörðugleika að stríða varðandi útblástur en það er eitthvað sem við trúum að fyrirtækinu takist að sigrast á. En það er alveg ljóst að ef við hefðum ekki haft Byggðastofnun, ef hún hefði ekki komið til skjalanna, er mjög ólíklegt að þetta fyrirtæki hefði nokkurn tíma risið á Bíldudal.

Sama þekkjum við um stórar atvinnugreinar sem bankarnir hafa verið mjög hikandi að lána til. Ég nefni í því sambandi rækjuiðnaðinn. Rækjuiðnaðurinn hefur gengið í gegnum gífurlega erfiðleika á undanförnum árum. Fyrir því eru margar ástæður. Markaðsaðstæður hafa verið erfiðar, það hefur verið erfitt á stundum að fá hráefni til vinnslunnar, rækjustofninn við Ísland hrundi og rækjuverksmiðjunum fækkaði úr því að vera tugir í það að vera kannski fjórar, fimm eða sex verksmiðjur á landinu. Byggðastofnun hefur hins vegar verið helsti lánardrottinn rækjuiðnaðarins og á vissan hátt haldið lífinu, liggur mér við að segja, í honum. Ég tel fullvíst að ef Byggðastofnun hefði ekki verið til staðar hefði rækjuiðnaðurinn okkar ekki verið svipur hjá sjón.

Þriðja atriðið sem ég vil nefna í þessu sambandi er uppbygging ferðaþjónustu víða úti um landsbyggðina. Byggðastofnun var mjög stór lánveitandi á þessu sviði mjög víða, ekki síst á þeim svæðum þar sem ferðaþjónustan var frekar frumstæð og naut ekki mikils lánstrausts hjá almennum lánastofnunum. Byggðastofnun var svo tilbúin til að koma til skjalanna þegar aðrar lánastofnanir, bankarnir, voru ekki tilbúnar til að lána.

Ég nefni þetta sem dæmi um það að Byggðastofnun hefur oft og tíðum starfað við mjög erfiðar aðstæður. Þegar menn hafa upp miklar dómadagsspár um útlánastefnu Byggðastofnunar mega þeir ekki gleyma þeim bakgrunni að stofnunin er oft og tíðum að starfa á landsvæðum sem bankarnir hafa dæmt á þann veg að þeir hafa ekki viljað lána þangað eða þá í atvinnugreinum þar sem lánastofnanirnar hafa ekki verið tilbúnar til að lána, og þá er ég sérstaklega að tala um atvinnugreinar sem hafa verið að byggjast upp úti á landsbyggðinni. Þetta segir okkur að Byggðastofnun hefur mikla sérstöðu og þeir sem þar stjórna verða að hafa annars konar yfirsýn yfir atvinnulífið en þeir sem starfa í hinum hefðbundnu lánastofnunum okkar, bankastofnunum, með fullri virðingu fyrir þeim.

Það er auðvitað þannig að við erum búin að setja lög um fjármálafyrirtæki sem kveða á um tiltekið hæfi og hæfni þeirra sem starfa í þessum lánastofnunum. Það á við um Byggðastofnun og það á þá væntanlega við um stjórnendur þeirra, bæði almenna stjórnendur og síðan stjórnarmenn. Við skulum bara leggja til hliðar spurningarnar um það hvort þetta eigi að gilda um Byggðastofnun eða ekki en ég sé ekki nein rök fyrir því að fækka stjórnarmönnum í Byggðastofnun til að koma til móts við lagaskylduna sem snýr að fjármálafyrirtækjum og hæfi þeirra sem starfa í stjórn Byggðastofnunar. Í nefndaráliti meiri hlutans er meðal annars vikið að þessu sem sérstökum rökum og kemur raunar fram líka í athugasemdum við frumvarpið sjálft. Þá er sérstaklega vikið að því að það sé orðið nýtt umhverfi fyrir stjórnendur stofnana á borð við Byggðastofnun af því að farið sé að kveða svo skýrt á um hæfi stjórnenda og stjórnarmanna en í sjálfu sér breytir engu um það hvort stjórnarmenn eru sjö eða fimm.

Það eru hins vegar heilmikil rök í því sem kemur fram í minnihlutaáliti iðnaðarnefndar, þar sem vikið er að því að það kunni þvert á móti að vera styrkur stofnunar eins og Byggðastofnunar að hafa þá sjö einstaklinga sem eru þá líkur á að hafi — hvað eigum við að segja — víðtækari yfirsýn yfir málefni landsbyggðarinnar en ef við værum með fimm einstaklinga í stjórninni, hversu góðir sem þeir að öðru leyti kunna að vera.

Hin rökin sem eru síðan nefnd í frumvarpinu, bæði í athugasemdunum og meiri hluti iðnaðarnefndar tekur undir í nefndaráliti sínu, að þetta sé hagræði eða aukin skilvirkni, eru ekki mjög sannfærandi. Í fyrsta lagi hefur verið bent á að fjárhagslegur ávinningur af þessu hlaupi á kannski 1–2 millj. kr. og í því umfangi sem Byggðastofnun er að véla um eru það ekki stóru tölurnar. Það geta því ekki verið rök í þessu máli að reyna að ætla sér að spara þarna einhverjar fáeinar krónur með því að fækka stjórnarmönnum.

Þegar farið er efnislega yfir rökin sem búa að baki frumvarpinu sé ég ekki að þau standist neina skoðun, hvorki að verið sé að auka skilvirkni né að verið sé að draga úr kostnaði. Það eru ekki þær tölur sem neinu velta. Síðast en ekki síst er það hitt, þetta með hæfið. Við getum engu að síður verið með reglur um hæfi stjórnarmanna, hvort sem stjórnarmennirnir eru fimm eða sjö.

Stóra málið í þessu sambandi er að við höfum Byggðastofnun sem tekst á við byggðamál í breiðum skilningi. Hluti af því kann að vera að Byggðastofnun er lánastofnun og kemur oft og tíðum til skjalanna þegar aðrar lánastofnanir eru einfaldlega ekki tilbúnar til þess og það eru auðvitað rök sem ekki er hægt að horfa fram hjá. Ef við ætlum að hafa það þannig að hér séu „köld svæði“ sem ekki eigi að njóta neinnar fjárhagslegrar fyrirgreiðslu í formi lánveitinga kann það að vera sjónarmið en þá erum við líka að afskrifa alls konar uppbyggingu í atvinnumálum á þeim svæðum og ég á ekki von á því að menn séu tilbúnir til þess.

Síðan er það hitt, eins og rakið er í athugasemdum við frumvarpið, að verið er að endurskoða mjög veigamikla þætti í starfi Byggðastofnunar. Hæstv. iðnaðarráðherra skipaði starfshóp til að greina nokkra þætti í lánastarfsemi hennar og lagði nefndin fram greinargerð sína sem hefur verið kynnt og hefur verið nokkuð til umræðu. Það er athyglisvert í því sambandi að í þessari skýrslu eru meðal annars rakin töp Byggðastofnunar af útlánum sínum í gegnum tíðina. Menn höfðu, meðal annars úr ræðustóli Alþingis, uppi mjög stór orð um það hversu óábyrg útlánastefna Byggðastofnunar hefði verið. Það er að mínu mati mjög ósanngjörn gagnrýni vegna þess, eins og ég var að segja, að Byggðastofnun starfar oft og tíðum á landsvæðum og við aðstæður þar sem áhættan kann að vera meiri; og henni er einmitt ætlað að koma til skjalanna og taka þátt í uppbyggingu atvinnulífs á svæðum í atvinnugreinum sem aðrar bankastofnanir hafa ekki verið að sinna. Það er því mjög ósanngjarnt að fella mikla áfellisdóma yfir starfsemi Byggðastofnunar við þær aðstæður sem henni er ætlað að starfa; og hún hefur það hlutverk að starfa í því umhverfi samkvæmt lögum sem við höfum sjálf sett á Alþingi.

Við skulum líka, til að allrar sanngirni sé gætt, fara yfir útlánatöpin á síðustu árum og bera saman útlánatöp Byggðastofnunar og útlánatöp sem hafa verið að koma fram í starfi annarra banka, annarrar útlánastarfsemi, annarra lánastofnana sem hafa verið að lána fé, meðal annars til atvinnulífsins. Í svari sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson fékk varðandi útlánatöp bankanna, þar sem fram kemur hvernig lán voru færð frá gömlu bönkunum yfir til hinna nýrri, kemur meðal annars fram, og ég hygg að ég sé að fara með réttar tölur, að búið hafi verið að færa niður útlán til fyrirtækjanna um 60% þegar þau eru tekin frá gömlu bönkunum og færð yfir í hina nýju. Er það ekki til marks um að þá er verið að afskrifa sem því nemur af útlánum gömlu bankanna sem hér voru starfandi um árabil og um áratugaskeið, verið að færa niður þessi lán og afskrifað sem þessu nemur? Berum það svo saman við þau útlánatöp, upp á ein 20%, sem eru hjá Byggðastofnun sem þó er að lána við mjög erfiðar aðstæður.

Að öllu þessu samanlögðu er mjög sérstakt, finnst mér, að það skuli síðan vera fyrstu viðbrögðin við endurmati á starfsemi Byggðastofnunar að hér birtist frumvarp frá hæstv. iðnaðarráðherra sem felur það eingöngu í sér að fækka stjórnarmönnum um tvo. Menn eru sem sagt að skoða útlánastarfsemi Byggðastofnunar. Við vitum samanburðinn við árangur annarra lánastofnana. Byggðastofnun, og þeir sem þar stjórna, þarf ekkert að skammast sín fyrir þann samanburð nema síður sé. Þeir eru að lána við erfiðar aðstæður til atvinnugreina sem hafa oft og tíðum ekki notið skilnings annarra lánastofnana. Árangur Byggðastofnunar er engu að síður hlutfallslega miklu betri en þeirra bankastofnana sem flugu hvað hæst fyrir fáeinum árum og stærðu sig af því að geta nánast gleypt allan heiminn og þyrftu ekkert á því að halda, og vildu ekki í ýmsum tilvikum, lána inn í veikustu byggðirnar og til ýmissar atvinnustarfsemi sem var að reyna að brjóta sér leið á landsbyggðinni.

Ég vék aðeins að því að hæstv. iðnaðarráðherra hefði skipað þessa nefnd eða þennan starfshóp til að greina nokkra þætti lánastarfsemi Byggðastofnunar. Hún skilaði skýrslu, dró fram ákveðna meginþætti í starfsemi stofnunarinnar, bar þetta allt saman. Niðurstaða hæstv. ráðherra, sem ég hygg að hafi verið skynsamleg niðurstaða, var sú að skipa nefnd með fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi til að fara yfir lánastarfsemi Byggðastofnunar í heild sinni.

Það er alveg ljóst að niðurstaða þessarar nefndar mun hafa heilmikið að segja um framtíðarstarfsemi Byggðastofnunar, hvernig staðið verður að henni, hvernig ríkið vill koma að því að reka Byggðastofnun, með hvaða hætti ríkið vill aðstoða eða greiða fyrir því að lánastarfsemi geti haldið áfram á vegum Byggðastofnunar, verði það niðurstaðan, o.s.frv. Það er því mjög sérkennilegt að rétt á meðan sú nefnd er að starfa, nánast í miðju kafi — sú nefnd hefur bara nýlega hafið starfsemi sína og er ekki búin að skila áliti sínu, hún var skipuð 16. febrúar sl. — sé tekin um það ákvörðun að gera tilteknar breytingar á uppbyggingu stofnunarinnar að því leyti að fækka stjórnarmönnum um tvo.

Það er alveg augljóst mál hvað býr að baki. Fram undan er aðalfundur Byggðastofnunar og ætlunin er sú að geta komið inn á þann aðalfund með nýsamþykkt frumvarp, með ný lög sem gerir hæstv. iðnaðarráðherra það kleift að fækka nefndarmönnum um tvo. Ég skil að vísu ekki hvað býr að baki, hvers vegna það er svona brýnt að ná því fram fyrir þennan aðalfund að fækka stjórnarmönnum um tvo. Er markmiðið að sýna fram á að verið sé að reyna að taka á málum innan Byggðastofnunar með því að fækka stjórnarmönnum um tvo? Það er röksemdafærsla sem ekki gengur upp í mínum huga og ég sé ekki þau rök sem maður hlýtur að gera kröfu til að séu sett fram í frumvarpi af þessu tagi um breytingar á Byggðastofnun. Við getum rætt breytingar á Byggðastofnun en það sem hér er verið að gera er fullkomið kukl, hefur ekkert með þessa umræðu að gera og virkar eins og fálm út í loftið sem menn grípa til í einhverjum æðibunugangi án þess að það hafi nein áhrif, hvorki á það að hagræða í starfsemi Byggðastofnunar sem einhverju máli skiptir né heldur að ná betur utan um starfsemi stofnunarinnar.

Það eru að mínu mati rök fyrir því að í stjórn Byggðastofnunar sé fólk sem hefur yfirgripsmikla þekkingu á háttum á landsbyggðinni og getur þess vegna lagt mat á ýmsa þætti sem lúta að starfsemi stofnunarinnar. Eins og minni hluti iðnaðarnefndar rekur í ágætu og gagnorðu áliti sínu þá er það bara þannig að Byggðastofnun hefur um ýmislegt annað að fjalla en eingöngu lánastarfsemi. Byggðastofnun hefur lögbundnu hlutverki að gegna sem ég tel að ástæða væri til að reyna að styrkja, meðal annars rannsóknir og athuganir á framvindu byggðamála sem gæti þá gefið Byggðastofnun tilefni til að bregðast við fyrir fram þegar fram undan er vá í byggðum landsins o.s.frv. Það sem hér er verið að gera mun að mínu mati frekar leiða til þess að veikja þann þátt í starfsemi stofnunarinnar og mun að minnsta kosti örugglega ekki styrkja hana.

Menn geta sagt sem svo að þetta sé ekki stórt mál og kannski er það ekki mjög stórt mál. Þetta er eftir sem áður mjög sérkennilegt mál í ljósi þess að verið er að endurskoða veigamikinn þátt í starfsemi Byggðastofnunar, menn eru í miðju kafi. Það eru ekki góð vinnubrögð að hæstv. ráðherra grípi inn í það með því að flytja þetta frumvarp til að taka á þessum afmarkaða þætti sem snertir þó ekki kjarna í starfsemi Byggðastofnunar og mun frekar veikja stofnunina til lengri tíma litið frá þeim sjónarhóli að stofnunin á erfiðara með að hafa þá yfirsýn sem stjórnarmenn sannarlega hafa veitt henni með mikilli þekkingu sinni á háttum og högum landsbyggðarinnar. Ég tel þetta frumvarp mikið óráð og hvet til þess að það verði fellt hér á Alþingi.