139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

meðhöndlun úrgangs.

186. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér er í raun og veru þrjú frumvörp í einu. Í fyrsta lagi eru í frumvarpinu tillögur um breytingar á því kerfi sem við höfum í kringum einnota drykkjarvöruumbúðir og í greinargerð með því er talað um að þær breytingar miði að því að auka framleiðendaábyrgð við þessar ráðstafanir gegn umhverfismengun sem því kerfi er ætlað að skila.

Í öðru lagi eru í frumvarpinu lagðar til breytingar um ábyrgð á raf- og rafeindatækjum. Markmiðið þar er að einfalda meðhöndlun úrgangs vegna raf- og rafeindatækja og gera vinnubrögð í þeim efnum markvissari.

Í þriðja lagi eru í þessu frumvarpi innleiddar tvær EB-gerðir. Önnur þeirra er um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði þar sem við tökum inn í íslensk lög reglur sem af henni leiða. Hin er um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma þar sem við breytum reglum okkar um þau mál í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins.

Það er rétt að segja frá því í réttri röð að um einnota drykkjarvöruumbúðir komst nefndin að því að í raun og veru væri ekki ástæða til að breyta því fyrirkomulagi sem við höfum haft um einnota drykkjarvörumbúðir allt frá 1989 þótt það kerfi í sjálfu sér standist kannski ekki þá gagnrýni sem áhugamenn um algera framleiðendaábyrgð hafa sett fram á það. Nefndin leggur þess vegna til að fella út úr frumvarpinu við afgreiðslu þess þau ákvæði sem fjalla um þetta og gerir ráð fyrir því að starfsemi Endurvinnslunnar, eins og fyrirtækið heitir sem við höfum falið að annast þessi mál, sé áfram óbreytt, ef til vill ekki til eilífðarnóns en við vonumst til að væntanleg sé töluverð endurskoðun á lögum og reglum á sviði þessara mála og leggjum til að ákvæði og fyrirkomulag í kringum Endurvinnsluna og drykkjarvöruumbúðirnar sé óbreytt þangað til það verður.

Við beinum því til umhverfisráðherra að beita sér fyrir slíkri endurskoðun, meiri hluti nefndarinnar, og bendum jafnframt á að við endurskoðun þessara laga og reglna sé nauðsynlegt að skoða vel skipulag Úrvinnslusjóðs og stjórn hans, m.a. hverjir eigi þar fulltrúa, og vísum í því sambandi til gagnrýni í umsögnum um frumvarpið en líka til umræðu í umsögnum og þingræðum vegna hækkunar á skilagjaldi hjá Úrvinnslusjóði í haust leið sem áhugamenn um þessi mál muna.

Um rafhlöður og rafgeyma er það að segja að nefndin telur ákvæði frumvarpsins um þau efni vera skynsamleg og telur að með þeim komist á betri skipan hérlendis um þau efni en hér hefur verið um hríð og við leggjum því til að þingið samþykki tvenns konar breytingar á því fyrirkomulagi sem hér hefur gilt frá því í ársbyrjun 2009. Annars vegar að öll raf- og rafeindatæki falli undir lögin og að tollafgreiðsla vöru sem undir lögin fellur sé háð því að framleiðandi og innflytjandi eigi aðild að skilakerfi, allir verði að eiga aðild að skilakerfi og geti ekki fengið vöru sína tollafgreidda nema þeir geti sýnt fram á það. Hins vegar er lagt til, og við tökum undir þær tillögur, að koma á jöfnunarkerfi milli skilakerfanna þannig að þau uppskeri hvert um sig — þau eru tvö núna og verða kannski ekki miklu fleiri — eins og þau sá og fela jafnframt stjórn Úrvinnslusjóðs að fara með hlutverk stýrinefndar í þessum efnum, kerfinu kringum raf- og rafeindatækjaúrgang, til að gera það starf markvissara og hagkvæmara. Við vekjum þó athygli á því að stjórn Úrvinnslusjóðs verður áfram eitt og stýrinefndin annað þannig að menn sem í þeirri stjórn sitja mega ekki blanda þessu tvennu saman þó að við felum stjórninni þetta sérstaka hlutverk.

Í umsögnum var þeirri tillögu komið á framfæri að til lengri tíma litið yrði best að raf- og rafeindatækjaúrgangur félli undir Úrvinnslusjóðinn og væri ekki í sérkerfi. Með því fyrirkomulagi væri lágmarkaður kostnaður en við vitum að um starfshætti Úrvinnslusjóðs ríkir víðtæk sátt meðal fyrirtækja og annarra þeirra sem hann þekkja. Það er hins vegar svo að menn álíta, þeir sem fyrir nefndina komu eða nefndin ráðgaðist við, að sú skipan að raf- og rafeindatækjaúrgangur félli undir Úrvinnslusjóð gangi þvert á ákvæði þessarar tilskipunar þar sem gerðar eru ýmsar kröfur og þess vegna er ekki að svo stöddu hægt að færa meðhöndlun þessa úrgangs undir sjóðinn. Í nefndaráliti tekur meiri hlutinn fram að skoða þurfi nánar hvað þurfi að gera til þess arna einmitt við þá heildarendurskoðun á skipan úrvinnslumála sem við hvetjum til og búumst við á næstunni.

Um námuúrganginn er lítið að segja. Engin starfsemi hér á landi fellur undir þessi ákvæði eins og er en það getur auðvitað orðið og þá verður löggjöfin engin fyrirstaða í því efni þannig að við tökum undir tillögu frumvarpsflytjanda um þá innleiðingu.

Meiri hluti nefndarinnar skrifar undir þetta álit fyrirvaralaust en hann skipa auk mín hv. þingmenn Ólína Þorvarðardóttir, Pétur H. Blöndal, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Skúli Helgason og Birgitta Jónsdóttir. Við berum fram breytingartillögur á sérstöku skjali. Þær eru nokkuð viðamiklar einkum vegna þess að burt er felldur töluverður partur af upphaflegu frumvarpi. Því er við að bæta að eftir að gengið var frá þeim kom í ljós eins og stundum gerist að ekki var allt með felldu með ákvæði um gildistíma. Frumvarpið var lagt fram í haust og í því var gert ráð fyrir að það yrði afgreitt samstundis nánast og það gæti tekið gildi um áramót. Það gat ekki orðið þannig að við gerum ráð fyrir að frumvarpið taki gildi um leið og það er samþykkt nema þau ákvæði sem minnst var á áðan um tollafgreiðslu raf- og rafeindatækjavöru því að vegna ábendingar frá tollyfirvöldum höfum við fallist á að það gerist ekki fyrr en 1. janúar 2012, þ.e. við næstu áramót, til að þau fái nægan tíma til að undirbúa sig fyrir þær breytingar.

Ég held að ég þurfi ekki að tala meira um þetta í bili. Nefndin er nokkuð sammála um þetta. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir gerir athugasemdir í áliti sem hún mælir fyrir á eftir en er að mér skilst sammála nefndinni að meginefni til um þetta mál og við hvetjum til þess að sú samstaða nái líka inn í sjálft þingið.