139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

meðhöndlun úrgangs.

186. mál
[17:12]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Án þess að ég ætli nokkuð að vera að setja ofan í við þingmanninn Mörð Árnason misskilur hann bersýnilega þetta frumvarp allharkalega því að hér er verið að tala um hættulegan úrgang sem fellur til við námuvinnslu. Gullvinnsla telst ekki hættuleg námuvinnsla og ég fer yfir það í ræðu minni á eftir. Hér er verið að tala um úrgang sem er hættulegur mönnum, dýrum og öðru lífi, umhverfi, andrúmslofti, grunnvatni og vatni en ekki einhverjar draumsýnir um að hér kunni að finnast góðmálmar í jörðu.

En svona byggist Evrópusambandslöggjöfin oft á miklum misskilningi. Eitt sem gæti fallið undir þessa löggjöf og sýnir fyrirhyggju hinna vestrænu þjóða gagnvart vanþróuðu löndunum er t.d. það að á Jamaíka eru námur þar sem verið er að leita eftir liþíum sem notað er í rafgeyma hjá vestrænum þjóðum og það efni er t.d. stórhættulegt þeim námumönnum sem þar eru niðri. Ég fer yfir þetta í ræðu minni en bendi þingmanninum á að þessi lagasetning er fullkomlega tilgangslaus og meira að segja er kveðið á um það í þeirri reglugerð sem verið er að innleiða að kjarnorkuúrgangur falli ekki undir þá reglugerð sem er til umfjöllunar því að að sjálfsögðu er sérstök reglugerð til um hann. En ég hvet þingmanninn til að hlusta á mál mitt á eftir svo hann komist að hinu sanna fyrir atkvæðagreiðsluna.