139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

meðhöndlun úrgangs.

186. mál
[17:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þakka henni sérstaklega fyrir stuðning við aðra þætti frumvarpsins og aðrar breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar en þær sem hún sjálf tiltók. Svo verð ég að segja líka að mér þótti mjög viðeigandi að hv. þingmaður vitnaði til Noregs. „Ja, vi elsker dette landet,“ syngja Norðmenn í dag og litlu börnin veifa fánunum sínum á Karl Johan og Haraldur kóngur, ég man ekki hvort hann er fjórði eða fimmti, sá fyrsti var sem sé Haraldur hárfagri, veifar á tröppum konungshallarinnar við endann á Karl Johan og við sem höfum verið í Noregi komumst nánast við af hamingju yfir 17. maí.

Það er auðvitað rétt að Norðmenn standa í lappirnar fyrr og síðar og þeir hafa gert það með okkur á efnahagssvæði Evrópu og eru örugglega, ef ég þekki skilvirkni, samviskusemi og dug Norðmanna rétt, búnir að taka þessa tilskipun og setja hana inn í sín lög fyrir langalöngu og þær allar sem hér um ræðir.

Það var líka ágætisáminning hjá hv. þingmanni að tala um námurnar í þriðja heiminum sem búnar eru til til þess að við getum haft það gott í Evrópu, Ameríku og á þeim svæðum í Asíu sem lengst þykja vera komin. Þar er ekki bara verið að grafa liþíum eða önnur þau efni sem hv. þingmaður nefndi. Það er rétt að minnast þess að á Jamaíku og víðar um heiminn eru miklar báxítnámur sem skilja eftir sig sár í jarðveginum sem gróa seint eða aldrei. Þær eru grafnar til þess að við á Vesturlöndum getum framleitt ál í sérstökum verksmiðjum sem krefjast mikillar orku. Það er svolítið skrýtið að þingmaðurinn skuli ekki hafa nefnt þær námur, t.d. sem dæmi um eyðileggingu sem við í þessum mikla forréttindahópi mannkyns stöndum fyrir í þriðja heiminum. En þetta má ræða lengi og kemur þessu máli kannski ekki mjög mikið við.

Ég vil þó líka þakka þingmanninum fyrir að hafa minnst á að á öllum þeim tíma sem liðinn er frá því að efnahagssvæði Evrópu var búið til hefur þingið ekki staðið sig nægilega vel í því að fara gagnrýnið í gegnum þá lagasetningu sem þar af stafar. Ég fagna því að núna á þessu þingi eða síðan ég kom aftur inn á Alþingi hef ég orðið var við að það fer mikið starf fram í utanríkismálanefnd og á nefndasviðinu við að breyta þessu. Ég tel að það tengist auknu sjálfstæði Alþingis og auknum þrótti á þinginu eftir hrunið að breyta þessu, m.a. með því að álag í þessum efnum hefur aukist á aðrar nefndir þingsins, utanríkismálanefnd er farin að senda þeim beiðnir og jafnvel skipanir um að gefa álit á ýmsum efnum. Þegar það er komið aðeins lengra en núna er þurfum við að notfæra okkur — og ég hef þegar tekið þátt í því starfi í nefndum þingsins — þann rétt sem við höfum til að gera athugasemdir innan þeirra tímamarka sem þar skipta máli og það er auðvitað ákaflega æskilegt að við gerum þetta þannig. Eigi athugasemdir hv. þingmanns yfir höfuð við um þetta frumvarp og þann hluta þess sem þingmaðurinn var að tala um hefðu þær átt við einmitt um þá vinnu á þeim tíma. Það var ekki gert á sínum tíma og þess vegna eru kannski ekki miklir kostir sem við stöndum frammi fyrir í umhverfisnefnd eða á þinginu núna. (Gripið fram í.)

Ég verð svo að segja að ég sannfærðist ekki alveg við langa ræðu þingmannsins upp úr tilskipuninni. Ég talaði um gull ekki í Skjaldbreið heldur í Öskjuhlíð af því að einhvern tíma um aldamótin var þar reynt að grafa gull. Við vitum að það er gull í Esjunni, það er þannig, og menn hafa reynt að nálgast það og á hvorugum staðnum, sé gull í Öskjuhlíðinni annað en huglægt, hefur hingað til svarað kostnaði að grafa það. Ég vona satt að segja að það svari aldrei kostnaði í Öskjuhlíðinni því að það mundi verða of mikið rask fyrir okkur að eiga við það en vel getur verið að það verði í Esjunni eða einhvers staðar annars staðar. Og sú staðhæfing mín sem er sett fram meira á grundvelli minnis og spásagnar en að fyrir liggi einhver vísindamennska eða fræðigrundvöllur til þess hefur ekki verið hrakin að hér kynni að finnast gull á Íslandi. Ef við viljum fara vel með tíma þingsins getum við líka haldið áfram að deila um hvort það gerist eða ekki.

Meginmálið er það að við komum okkur upp almennilegum reglum um úrgang og við erum svo heppin að hafa aðgang að slíkum reglum í lagasetningu Evrópusambandsins og erum núna í umhverfisnefnd smám saman þessi árin að koma okkur upp regluramma, lagaramma í kringum það og það var löngu kominn tími til og kannski sérstaklega vegna þess að við búum hér fámenn þjóð í stóru landi en berum auðvitað ábyrgð gagnvart landinu og gagnvart nágrönnum okkar í þessu efni. Ég vona og skil það svo að hv. þingmaður hafi ekki með orðum sínum um krata hér og krata þar verið að taka afstöðu á móti því að settar séu reglur um meðhöndlun hættulegs úrgangs. Ég skil það þannig að þingmaðurinn styðji það enda styður hún frumvarpið að meginhluta til og hefur ekki hreyft mótmælum við þessari heildarstefnu, a.m.k. ekki í umræðunni í umhverfisnefnd.

Eins og sagt var í andsvörum er það þannig og ég sagði í framsöguræðu minni að engin starfsemi á Íslandi, enginn atvinnurekstur á Íslandi fellur undir þau ákvæði sem við erum að leggja til að samþykkt verði um námuúrgang. Það þýðir ekki að það verði aldrei og við höfum þá ekki eingöngu samræmt löggjöf okkar löggjöf annarra þjóða á efnahagssvæði Evrópu heldur erum við reiðubúin að taka á því ef upp kemur áhugi á námugreftri sem undir þetta fellur, hvort sem það er gull eða það annað sem menn vilja finna hér.

Það er svo, þannig að það sé sagt í ræðustól Alþingis og hefur kannski verið gert áður, að með inngöngu okkar í efnahagssvæði Evrópu á sínum tíma vorum við að taka þátt í bandalagi margra þjóða, sem síðan hefur fjölgað mjög, um sameiginlegt markaðssvæði og skilyrði sameiginlegs markaðssvæðis. Ekki bara það að menn geti talað saman heldur líka það að aðstæður manna í hverju landi fyrir sig á svæðinu séu sem allra líkastar. Að því beinist þessi lagasetning okkar að hún sé þannig að menn geti hvar sem er á svæðinu gert sér grein fyrir með hvaða hætti þeir geti stundað atvinnurekstur á öðrum stöðum á svæðinu og hvaða möguleika þeir hafa á atvinnu eða athöfnum annars staðar á svæðinu. Út á það gengur einfaldlega Evrópska efnahagssvæðið og út á það gekk í upphafi Evrópusambandið þó að það sé nú orðið miklu víðtækara samstarf og með öðrum hætti en þessi hráa lógík á bak við sameiginlegt markaðssvæði gengur út á.

Gallinn hjá okkur hygg ég að sé ekki sá, þannig að það sé sagt líka og e.t.v. ekki í fyrsta sinn í þessu púlti, að við reynum að samræma reglur okkar þeim sem gilda á því markaðssvæði sem við höfum valið okkur að vera í, og þar á meðal flokkur hv. þingmanns að meiri hluta til á sínum tíma, fyrir 17 árum mun það hafa verið, og hefur ekki gert neinar athugasemdir við þangað til þá nú ef þetta er athugasemd við það og stefna Framsóknarflokksins hefur breyst. Gallinn er ekki sá að við skulum taka upp sömu reglur og eru á svæðinu, gallinn er sá að við skulum ekki taka meiri þátt í sköpun þeirra reglna, að við skulum ekki vera meðhöfundar þeirra reglna sem við tökum upp en það getum við ekki orðið nema við göngum í sjálft Evrópusambandið og beitum okkur þar í þeim málum sem okkur þykja mikilsverðust.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra enda er mér jafnannt um tíma þingsins og hv. þingmanni sem talaði áðan. Ég þakka henni fyrir ágæt tilefni til ýmiss konar athugasemda en verð þó að lokum að gera örlitla bragarbót eða leiðréttingu, af því að í nefndaráliti minni hlutans er talað um breytinguna á skilgreiningu hugtaksins „námuúrgangsstaður“ en við leggjum til að þessu verði breytt þannig að það sé klárt að sú breyting er ekki efnisleg að því leyti að námuúrgangsstaður í frumvarpinu sé eitt og annað í breytingartillögum okkar heldur er hún nákvæmari og skýrari og er bætt orðalag. En sérstaklega vil ég tiltaka að það að ekki stendur lengur í 5. tölulið 5. gr. frumvarpsins að námuúrgangsstaður sé förgunarstaður þýðir ekki að það sé ekki svo heldur hefur sú upplýsing verið færð í 2. gr. í lögunum, nefnilega í 8. gr., þannig að námuúrgangsstaður er skilgreindur sem förgunarstaður eftir sem áður. Þetta er bara til þess að menn ruglist ekki á þessu. Ég held að menn geri það ekki þegar frumvarpið hefur verið samþykkt og fellt inn í heildarlögin nr. 55/2003, með síðari breytingum.