139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

opinber innkaup.

189. mál
[18:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þá ítreka síðari spurningarnar sem hv. þm. Magnús Orri Schram náði ekki að svara, annars vegar um hvort fyrir hendi væru sambærileg ákvæði í lögum annarra landa sem telja megi að búi við sambærilega löggjöf á þessum sviðum. Liggur þá nærri að velta fyrir sér hvort aflað hafi verið upplýsinga um lagafyrirkomulag eða löggjöf að þessu leyti í Danmörku og Noregi vegna þess að þar er helst að finna sambærilega löggjöf á sviði opinberra innkaupa og hér á landi. Væri áhugavert að vita hvort ákvæði af þessu tagi eru í lögum Norðmanna og Dana. Væri þá hugsanlega hægt að bera það saman og afla upplýsinga um það hvernig ákvæði af þessu tagi hafa reynst í þeim löndum.

Hin spurningin var um það sem sneri að því að hér væri um undantekningarleið að ræða. Ég heyri það á máli hv. þingmanns og les það út úr nefndaráliti að gert er ráð fyrir að hér verði um að ræða undantekningartilvik þar sem heimildinni verði beitt. Lagatextinn sem slíkur felur hins vegar ekki í sér að mínu mati neinn áskilnað um það, heldur er um að ræða tiltölulega opna heimild til stjórnvalda til að ákveða innkaup með þessari aðferð. Ég velti því fyrir mér hvort það hafi verið skoðað af hálfu hv. nefndar að undirstrika það í lagatextanum sjálfum að hér sé aðeins um undantekningartilvik að ræða.