139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

opinber innkaup.

189. mál
[18:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp um opinber innkaup. Vinnan í kringum það frumvarp á sér nokkuð langa sögu. Ég ætla ekki að þræta fyrir það að kannast við þetta mál. Ég setti á sínum tíma, sem heilbrigðisráðherra, af stað hóp undir forustu Halldórs Jónssonar, forstjóra spítalans á Akureyri, til að kanna hvernig við gætum náð betri innkaupum fyrir heilbrigðisstofnanir í heild sinni á Íslandi og skoða samstarf við önnur lönd. Þetta er að mörgu leyti sérstakur markaður, það sem snýr að heilbrigðisvörunum, og ekki er mjög langt síðan Norðurlöndin fóru þessa leið, þ.e. að fara í sérstök innkaupasambönd í löndum sínum til að ná hagstæðara verði.

Flest Norðurlöndin, í það minnsta Svíþjóð og að ég held Noregur, skiptast í heilbrigðisumdæmi og hvert heilbrigðisumdæmi er alla jafna svipað að stærð ef ekki stærra en allt Ísland. En með því að sameinast hafa menn náð góðum árangri í innkaupum. Það er í sjálfu sér nokkuð merkilegt að Norðmenn hafi náð þessum árangri vegna þess að einhverra hluta vegna er verðið á lyfjum í Evrópu mjög háð kaupmætti viðkomandi ríkja og það hefur kostað mikil slagsmál að ná niður lyfjaverði, sérstaklega í ríkari löndunum.

Um tíma vorum við með hæsta lyfjaverð í Evrópu hér á Íslandi en það var í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem verulegur árangur náðist. Ég held að í minni tíð sem heilbrigðisráðherra höfum við lækkað lyfjakostnaðinn um 1 milljarð kr. Það gerðist hins vegar ekki af sjálfu sér, það gerðist með markvissum aðgerðum. Eitt af því sem við litum til voru hagstæðari innkaup og samvinna við aðra aðila.

Í eðli sínu er það bara svo að það er algerlega undir velvild annarra þjóða komið — menn hafa sérstaklega horft til Noregs í því sambandi — hvort við getum fengið að vera með í útboðum þeirra. Við höfum í sjálfu sér ekki mikið að bjóða. Þetta er afskaplega lítill markaður, þetta er örmarkaður, og oftast eru þær vörur sem um er að ræða tiltölulega afmarkaðar og geta kallast undantekningartilvik. Það er því frekar undir náð þessara innkaupasambanda og landa komið hvort þau taka okkur með í viðkomandi útboð.

Ekki er þar með sagt að engin hætta sé á leiðinni. Það er afskaplega mikilvægt að fara vel yfir þetta mál og því verður vísað til nefndar milli 2. og 3. umr. Ég hef heyrt menn hafa áhyggjur af því, og ég held að við verðum að fara vel yfir það, að sökum stærðar Landspítalans sé ákveðin hætta á því að þrátt fyrir að það sé alveg skýrt, og hafi oft komið fram í umræðunni, að einungis sé um að ræða undantekningartilvik þar sem einstaka lyf hafa reynst mjög dýr á Íslandi — í umfjöllun eða umsögn Landspítalans er talað um einstakt lyf og ársnotkun þess kostaði rúmlega 20 milljónir eftir útboð en sambærilegt lyf, ef það er keypt í gegnum norska innkaupasambandið, kostar 6,7 millj. kr. Sér þá hver maður að þarna munar mjög miklu. Þetta er hins vegar ekki almenna reglan eins og ég nefndi því að lyf hafa lækkað mjög og hefur það meðal annars gerst með handafli og stjórnvaldi, þ.e. ekki er heimilt að selja lyfin á hærra verði en gengur og gerist miðað við meðalverð á Norðurlöndunum. Að því leytinu til erum við að tala um breytta tíma.

Það er hins vegar afskaplega mikilvægt að ekki séu neinar gloppur í þessari lagasetningu sem geti til dæmis orðið til þess að stór heilbrigðisstofnun — það væri þá helst Landspítalinn og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins — gæti farið í lyfjadreifingu og þá beint í samkeppni við aðila sem eru á því sviði núna. Þetta verði síðan fyrst og fremst til að sjá til þess að ekki sé hætta á því að verð á einstaka vörum sé mun hærra en gengur og gerist annars staðar. Þar hafa menn meðal annars bent á, í umsögnum, að hugsanlega væri hægt að bjóða út einstaka samheitalyf sem eru ekki á markaði hér þrátt fyrir að markaðsleyfi sé fyrir þeim. Það er svolítið sérstakt að þrátt fyrir að fengist hafi markaðsleyfi fyrir ákveðin lyf þá selja framleiðendur einhverra hluta vegna þau lyf ekki til Íslands og er það í sjálfu sér nokkuð merkilegt.

Það er merkilegt að sú ríkisstjórn sem nú situr klúðraði gullnu tækifæri til að koma á sameiginlegum norrænum heilsu- og lyfjamarkaði sem var stefna fyrri ríkisstjórnar og eitt helsta stefnumálið í tíð Íslands þegar það var í forustu í Norðurlandaráði árið 2009. Það var ekki framkvæmt en þar var ég búinn að fá samþykki allra heilbrigðisráðherra á Norðurlöndunum fyrir að fara í sameiginlegt norrænt heilsusvæði sem hefði t.d. þýtt að Svíar hefðu getað fengið hér lækningu og fengið greitt frá sinni tryggingastofnun. Það hefði líka þýtt það — við vorum að reyna að koma þeim málum þannig fyrir, helst á öllum Norðurlöndunum, í það minnsta fyrir okkur Íslendinga — að þar sem komið væri markaðsleyfi fyrir ákveðið lyf, segjum í Svíþjóð eða Noregi eða eitthvað slíkt, þá mundi það líka duga á Íslandi. Vandinn hefur verið sá að framboð á lyfjum hefur verið of lítið.

Við fórum í samstarf við Svía en ég held hins vegar að það hafi ekki verið ræktað og sé ekki til staðar lengur og það er mjög slæmt, nokkrir tugir lyfja voru komnir með markaðsleyfi með þeim leiðum. Það var þannig að ef þú skráir lyf og færð markaðsleyfi fyrir lyf í Svíþjóð þá færðu sjálfkrafa markaðsleyfi á Íslandi enda er nákvæmlega sami prósess í gangi þar og hér og í öllum löndum Evrópu. Menn þurftu þá ekki að fara í tvöfalt kerfi eða tvöfalda umsókn með þeim kostnaði sem því tilheyrir.

Það merkilega var að flestir þeir sem sóttu um markaðsleyfi sættust á að fá markaðsleyfi í leiðinni á Íslandi sem gerði það að verkum að þeir gátu selt lyf á Íslandi. En þó voru nokkrir aðilar — og það þurfti að hafa fyrir því að koma í veg fyrir það — sem vildu ekki fá markaðsleyfi á Íslandi. Það er í sjálfu sér stórmerkilegt að aðili sem selur á einn markað og getur án kostnaðar og fyrirhafnar fengið leyfi til að selja á annan markað leggi sérstaklega mikið á sig til að svo verði ekki. Þetta umhverfi er því allt svolítið sérstakt og því miður, með því að ganga í Evrópska efnahagssvæðið, þá komum við á haftaverslun Evrópusambandsins með lyf hér.

Í öðrum vöruflokkum er almennt talið að ef vara er komin inn á Evrópska efnahagssvæðið í einu landi sé hún komin í önnur lönd, en þetta á ekki við um lyf. Ég veit ekki til þess að það eigi við um nokkra aðra vöru. Ef einhver flytur inn lyf til Íslands og vill svo flytja það til Noregs þarf hann að sækja um og fara í gegnum nákvæmlega sama umsóknarferli í Noregi og hann gerði á Íslandi með kostnaði sem því tilheyrir. Þetta eru auðvitað slæmar fréttir fyrir alla álfuna en sérstaklega fyrir Ísland sem er fámennt þjóðfélag með lítinn markað.

Hvað sem því líður held ég að við ættum að nota tækifærið, þegar við fáum þetta aftur til nefndarinnar, og fara sérstaklega yfir þau atriði sem menn hafa áhyggjur af. Ég nefndi lyfjadreifinguna og aðra slíka þætti. Það hefur sömuleiðis komið skýrt fram að það sé vilji löggjafans og þeirra sem leggja þetta fram að þetta sé í undantekningartilvikum, þ.e. að ekki sé verið að fara þá leið að útboð verði almennt með þessum hætti, að menn fari ekki með allar vörur í þetta. Um er að ræða almennt leyfi til að fara þessa leið þó svo að það séu þrír aðilar sem þurfi að samþykkja það. Og það er skynsamlegt að ganga þannig frá málinu að girt sé fyrir það í lögskýringargögnum eða lagatexta svo að öllum sé ljóst hvað er á ferðinni og ekki sé hægt að fara fram hjá því með einhverjum hætti. Lög eru lög og það breytir engu þó svo við sem göngum frá þessu hér höfum einhverjar ákveðnar skoðanir og skilning á þessu, það eiga fleiri eftir að vinna eftir þessum lögum en það framkvæmdarvald sem nú situr og þeir kjörnu fulltrúar sem að málum koma. Það kemur svo sem fram hjá umsagnaraðilum að menn hafa áhyggjur af ákveðnum hlutum og það er sjálfsagt og eðlilegt að fara vel yfir það.

Ég verð að viðurkenna það hreinskilnislega að ég man ekki eftir að hafa samþykkt að vera á þessu nefndaráliti en ég er samþykkur flestu því sem hér kemur fram. En það er kannski ekki aðalatriði málsins. Ég er ekki búinn að lúslesa þetta því að ég vissi ekki til að ég væri á þessu áliti. En ég held hins vegar að við séum ekki að fara í þessa lagasetningu til að geta keypt útvörp í flugvélar fyrir ríkið. Ég veit ekki betur en ríkið eigi kannski eina eða tvær flugvélar og við förum ekki að breyta lögum til að hægt sé að kaupa útvörp í flugvélar með minni tilkostnaði. Ég veit ekki hvernig þetta hefur læðst þarna inn en þetta hljómar eins og fullkomin vitleysa og það er ekki gott. Hins vegar liggur fyrir að um ákveðinn öryggisbúnað, menn nefndu þyrlur, sérhannaða bíla fyrir lögreglu og annað slíkt, gildir annað. — Hér kemur hæstv. varnarmálaráðherra í salinn. Það er ánægjuefni að sjá hann og fylgir því öryggistilfinning. Um leið og hann heyrði að við vorum að ræða eitthvað sem tengist öryggis- eða varnarmálum kom hann hlaupandi inn. Það sýnir breyttar áherslur hæstv. ráðherra sem ég hef sérstaklega hrósað honum fyrir og mun ekki þreytast á að gera það. Menn eiga að hrósa fyrir það sem vel er gert.

Virðulegi forseti. Að öllu gamni slepptu held ég að það væri — sérstaklega þar sem flestir aðilar sem að málinu koma virðast vera algerlega sammála um markmið frumvarpsins — skynsamlegt fyrir okkur að setjast yfir þetta á milli umræðna og fara yfir það einu sinni enn. Menn gert augljóslega gert mistök eins og t.d. að setja í nefndarálit nafn manna sem ekki eru búnir að samþykkja það og sömuleiðis að fara í lagasetningu um að kaupa útvarp fyrir flugvélar þegar ríkið á engar flugvélar, nema eina eða tvær. Það er því alveg þess virði að renna yfir þetta einu sinni enn og það munum við gera.